Stjörnuáhugafólk ýmsu vant

Sólmyrkvi, mynd úr safni.
Sólmyrkvi, mynd úr safni.

Deildarmyrkvi á sólu hófst klukkan sex mínútur yfir níu. Tunglið mun skyggja á 69% af þvermáli sólar þegar myrkvinn verður mestur klukkan 17 mínútur yfir tíu. Sigríður Kristjánsdóttir, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir skyggni ekki með besta móti og því óvíst að deildarmyrkvinn verði sjáanlegur.  

„Það er nú svolítið skýjað, en maður sér nú svona bláa bletti líka. En mér finnst þetta vera mjög tæpt. Maður gæti séð hann með sérstökum sólarsjónauka, því hann gæti séð í gegnum skýin, en það eru nú ekki margir sem eiga svoleiðis. Mér finnst þetta ekki líta nógu vel út,“ segir Sigríður. 

Hún segir áhugafólk um stjörnuskoðun vera ýmsu vant. 

„Við vorum eiginlega búin að afskrifa þetta því að spáin var svo glötuð, þangað til í gær þegar spáin varð bara nokkuð góð. En við erum svo sem alveg vön þessu,“ segir Sigríður. 

Um er að ræða mesta sólmyrkva sem sést hér á landi frá 20. mars 2015. Eftir fimm ár, 12. ágúst 2026 verður fyrsti almyrkvi á sólu á Íslandi síðan 1954 og sá þrettándi frá landnámi. 

„Þá fáum við gott veður. Við verðum að fara undirbúa okkur strax, biðja um gott veður, passa að allir eigi sólmyrkvagleraugu og svoleiðis,“ segir Sigríður. 

„Við erum ýmsu vön, þetta gerist líka þegar við ætlum að fara skoða stjörnurnar að þá bregst veðurspáin,“ bætir Sigríður við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert