Þinglok gætu dregist fram yfir helgi

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Alþingi fundar fram á kvöld og reynir að leysa þá hnúta sem enn þá eru til staðar. Unnið er að því að þinglok náist á laugardag, þótt það geti dregist fram yfir helgi. 

Ekki er komið neitt heildarsamkomulag enn þá en Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur að þinginu hafi þó orðið nokkuð ágengt í dag.

„Vandinn er sá að við verðum að skoða þetta heildstætt. Bæði út frá þeim stjórnarfrumvörpum sem liggja fyrir og ætlunin er að afgreiða og eins erum við að skoða hvort stjórnarandstaðan fái einhver þingmannamál á dagskrá,“ segir Birgir. 

Mörg mál eru undir en þó ekkert óvenjumörg að mati Birgis. Hann bendir á að þótt viss atriði hafi fengið ítarlega umfjöllun yfir veturinn þá lendi lokaafgreiðslan oft á síðustu dögunum.

Birgir bendir á að Alþingi hefur afgreitt fleiri mál á þessu ári en á hefðbundnu ári, með þeim 60 Covid-málum sem hlutu forgang gagnvart öðrum. 

Málin sem bíða afgreiðslu hanga að miklu leyti saman. Þó að það hafi tekist að finna lausnir í einstaka málum eru þau háð því að önnur leysist líka.

Ríkisstjórnin samanstendur af ólíkum flokkum og stjórnarandstaðan hefur áhyggjur af mismunandi málum. Línur eru því ekki alveg skýrar og skiptar skoðanir er bæði að finna innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, segir Birgir.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is