Þrjú verkefni fengu styrk úr menningarsjóð

Á myndinni eru frá vinstri Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, …
Á myndinni eru frá vinstri Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, ásamt styrkþegunum, þeim Hauki Má Haraldssyni (Prentsögusetur), Soffíu Auði Birgisdóttur, Jónu Guðbjörgu Torfadóttur, Steinunni Ingu Óttarsdóttur (Skáldaskinna) og Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur (Blómaskeið tangós). Ljósmynd/Aðsend

Þrjú verkefni hlutu styrk úr menningarsjóði í nafni Jóhannesar Nordal, fyrrverandi Seðlabankastjóra.

Var þetta í tíunda skipti sem úthlutað er styrkjum úr menningarsjóðnum. Markmið sjóðsins er að styðja við einstaklinga og hópa sem vinna að því að varðveita menningararf Íslendinga.

Alls bárust 29 umsóknir en þau þrjú sem hlutu styrkinn voru Skáldaskinna ehf., Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Prentsögusetrið. Um er að ræða 4 milljóna króna styrk sem skiptist milli verkefnanna.

Skáld.is

Skáldaskinna ehf. hlaut 1,6 milljóna króna styrk fyrir verkefnið skáld.is. Vefurinn Skáld.is er tileinkaður konum og skrifum þeirra en hann var settur á laggirnar árið 2015 og opnaður almenningi árið 2017.

Tilgangurinn er að safna saman upplýsingum um íslenskar kvennabókmenntir á einn stað og halda þar utan um ævi og verk íslenskra skáldkvenna og rithöfunda. Ennfremur er lögð áhersla á að halda úti lifandi umræðu og umfjöllun um samtímabókmenntir, útgáfu og viðburði tengda íslenskum kvennabókmenntum.

Blómaskeið íslenska tangósins

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir hlaut 1,4 milljóna króna styrk fyrir verkefnið „Blómaskeið íslenska tangósins á 20. öldinni.“ Verkefnið felst í að skrásetja þetta tiltekna tímabil í tónsmíðum á Íslandi þar sem viðfangsefnið voru tangóar, en skeiðið hófst á árunum eftir seinni heimsstyrjöld og varði fram á seinni hluta 20. aldar.

Í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum segir að þessi þáttur íslenskrar tónlistarhefðar sé menningararfleifð sem vert sé að halda utan um og veita verðskuldaða athygli með nýjum útsetningum og aukinni spilun.

Þróun bókagerðar á Íslandi 1535 - 1877

Prentsögusetur hlaut eina milljón króna fyrir verkefnið „Þróun bókagerðar á Íslandi 1535-1877.“ Verkefnið felst í sýningu á tækjum til bókagerðar; setning, prentun, bókband. Sýnd verða smærri tæki á sýningarstað, en á myndum, teikningum og hreyfimyndum verður gerð grein fyrir þróuninni.

Skálholtsstaður og Prentsögusetur vinna sameiginlega að þessu verkefni og gert er ráð fyrir að fyrsti hluti safnsins verði tilbúinn til sýninga síðar á þessu ári.

Úthlutunarnefndina skipa Hildur Traustadóttir, fulltrúi bankaráðs Seðlabanka Íslands, og er hún jafnframt formaður nefndarinnar, Páll Magnússon, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.mbl.is