18 mánuðir fyrir líkamsárás og hótanir

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur þyngdi dóm héraðsdóms í máli manns sem var sakfelldur fyrir tvær líkamsárásir gagnvart fyrrverandi kærustu sinni sem var ekki orðin 18 ára þegar verknaðurinn átti sér stað. Var hann að auki sakfelldur fyrir hótanir í garð barnsmóður sinnar. 

Í héraði var maðurinn dæmdur í 12 mánaða fangelsi en í Landsrétti var refsingin hækkuð upp í 18 mánuði. Sú staðreynd að brotaþolar voru fyrrverandi kærustur mannsins, var talin auka á grófleika brotsins. 

Fyrri líkamsárásin átti sér stað 19. október 2019 á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn. Maðurinn veitti fyrrverandi kærustu sinni, sem var þá ekki orðin 18 ára, ítrekuð högg og spörk sem beindust sérstaklega að höfði hennar. Hann tók hana hálstaki og þrengdi að öndunarvegi hennar með þeim hætti að það stofnaði lífi hennar í hættu. Einnig reif hann í hár hennar. Konan hlaut augnatóftargólfsbrot við bæði augu, nefbeinsbrot, opið sár á höfði, yfirborðsáverka á höfuð, mar á háls, blæðingar í munni, yfirborðssár í hársvörð, yfirborðsáverka og mar víðs vegar um líkamann. 

Seinni líkamsárásin átti sér svo stað í Keflavík 8. september það sama ár. Þá hlaut stúlkan áverka á andlit eftir að hann sló hana.

Manninum hefur verið gert að greiða stúlkunni 1,7 milljónir í miskabætur. 

Barnsmóður sinni hótaði maðurinn ítrekað í gegnum samskiptaforritið Snapchat. Hótanirnar voru til þess fallnar að láta hana óttast um líf sitt og öryggi.

Manninum var þá gert að greiða 200.000 krónur í miskabætur til barnsmóður sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert