Barnið gert að hjarta kerfisins

Öll börn og fjölskyldur þeirra fá tengilið í nærumhverfi fjölskyldunnar …
Öll börn og fjölskyldur þeirra fá tengilið í nærumhverfi fjölskyldunnar og málastjóra, fyrir alvarlegri mál. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Frá og með 1. janúar á næsta ári munu þrjár stofnanir taka við þeim verkefnum sem Barnaverndarstofa hefur sinnt hingað til. Er þetta liður í umfangsmiklum kerfisbreytingum á velferðarkerfi barna sem á að grípa börnin miklu fyrr í ferlinu og halda betur utan um málefni þeirra.

„Markmiðið með þessu er að fækka þriðja stigs tilfellum,“ segir Ásmundur Daði Einarsson, félags- og barnamálaráðherra. „Við erum með allt of mikið af þungum málum sem hefði verið hægt að grípa fyrr.“

Alþingi samþykkti í dag fjögur frumvörp Ásmundar, sem tengjast málefnum barna. Um er að ræða frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála, auk frumvarps um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þá var þingsályktunartillaga um Barnvænt Ísland einnig samþykkt.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynnir hér væntanlegar breytingar.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynnir hér væntanlegar breytingar. Ljósmynd/Aðsend

Þrískipt velferðarkerfi

Barnaverndarstofa verður lögð niður en starfsemi hennar færist að mestu leyti yfir til nýrrar stofnunar, Barna- og fjölskyldustofu. Mun hún sjá um uppbyggingu úrræða og yfirstjórn heimila og stofnana fyrir börn. Þá mun stofnunin sinna stuðningi við sveitarfélög og aðra þjónustuaðila vegna þjónustu í þágu barna.

Barnaverndarstofa verður lögð niður.
Barnaverndarstofa verður lögð niður. mbl/Arnþór Birkisson

Eftirlit færist að öllu leyti yfir til sérstakrar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem verður sjálfstæð stofnun. Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar verður hinsvegar lögð niður.

Þriðja stofnunin er Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Með nýju lögunum er hlutverk hennar aðlagað að því að sinna betur verkefnum sem tengjast auknu samstarfi og samþættingu þjónustu í þágu barna. Lögð er rík áhersla á að ryðja burt hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á og að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að stuðla að því að barn fái þjónustu við hæfi.

Grípa 50 börn fyrir 2 milljarða

 „Ég held það fatti ekki allir hvað þessi kerfisbreyting er stór,“ segir Ásmundur. Með henni er byggt upp þrískipt velferðarkerfi fyrir öll þau börn sem þurfa aðstoð vegna einhverra frávika á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Slík frávik geta verið með ýmsum hætti, til að mynda þunglyndi, áskorun eða vandamál innan fjölskyldunnar eða hegðunarvandamál.

Með kerfisbreytingunni á að vera hægt að grípa 50 börn …
Með kerfisbreytingunni á að vera hægt að grípa 50 börn af þeim 350 sem árlega fá ekki nauðsynlegan stuðning kerfisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árlega verða 2500 börn fyrir frávikum. Þar af eru 350 tilfelli sem tekst ekki að grípa inn í þó þörf hefði verið á því.

Mörgum fjölskyldum hefur þótt kerfið bregðast sér, þeim sé kastað á milli innan þess og vita ekki hvert þau eigi að snúa sér.  Ásmundur segir breytingarnar eigi að svara því kalli.

Með þessari kerfisbreytingu einni verður hægt að grípa 50 börn til viðbótar á ári. Samkvæmt greiningu ráðuneytisins mun þetta kosta 1,5 – 2 milljarða íslenskra króna á ársgrunni. Sú fjárhæð hefur verið tryggð í gildandi fjármálaáætlun.

Ásmundur segir að samkvæmt útreikningi hagfræðinga muni þessi fjárfesting til framtíðar, skila sér í arðsemi á við Kárahnjúkavirkjun, Keflavíkurflugvöll eða Sundabraut.

Ásmundur segir að samkvæmt útreikningi hagfræðinga muni þessi fjárfesting til …
Ásmundur segir að samkvæmt útreikningi hagfræðinga muni þessi fjárfesting til framtíðar, skila sér í arðsemi þá sem Keflavíkurflugvöllur skilar Kristinn Magnússon

Gera barnið að hjarta kerfisins

Nú fer í gang innleiðing á nýju tölvukerfi sem á að aðstoða alla þá sem koma að málefnum barna við þá samvinnu sem þörf er á. Einnig verður hafist handa við að innleiða gjörbreytta hugsun þeirra sem koma að þessum málum.

Allir aðilar í nærumhverfi barnsins fá með þessu aukna ábyrgð og stöðugt samtal þarf að vera í gangi milli allra þessara aðila sem og meiri nánd þeirra við stofnanirnar þrjár.

Með þessari nýju löggjöf er hugsunin er að gera barnið að hjarta kerfisins.

Öll börn og fjölskyldur þeirra fá tengilið í nærumhverfi fjölskyldunnar og málastjóra, þegar málin verða alvarlegri, sem taka utan um tilfellin og aðstoða börn í viðkvæmri stöðu við að sækja sér nauðsynlega þjónustu og reka mál sín áfram í kerfinu. Þannig verður þeim gráu svæðum sem fólk finnur sig stundum í, eytt.

Börn eru besta fjárfestingin

Að einhverju leyti mun þurfa að bæta við fólki á fyrri stigum kerfisins en samkvæmt arðsemismatinu er miðað við að það leiði til þess að létta á þyngri enda kerfisins á móti.

Nýju lögin einkennast af forvarnarhugsun og í þeim er að finna mikið af fyrirbyggjandi aðgerðum.

Ásmundur segir að um sé að ræða stóran og metnaðarfullan grunn sem þurfi að byggja ofan á.  

„Velferð barna er besta fjárfestingin og sú eina sem skiptir máli. Ef við fjárfestum í börnunum þurfum við ekki að hafa áhyggjur af hagvexti eða vinnumarkaði framtíðarinnar.“

Barnvænt Ísland

Þingsályktunin um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmála Evrópu, miðar að því að innleiða verklag og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar.

„Það má ekki slíta réttindi og raddir barna frá velferðarkerfinu,“ segir Ásmundur. Hann segir að þessi þingsályktun skerpi á því hvernig bera eiga hagsmunamálin undir börn, efla barnaþing og ungmennaráð. Unnið sé einnig að því að gera öll sveitarfélög landsins að barnvænum sveitarfélögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert