Drífa vill ekki sjá einkavæðingu öldrunarheimila

Drífa Snædal er fromaður Alþýðusambands Íslands.
Drífa Snædal er fromaður Alþýðusambands Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) vill ekki sjá einkavæðingu öldrunarheimila. Hún bendir á að Svíþjóð hafi freistast til þess og bil hafa myndast þar milli stjórnmálanna og almennings. Hagkvæmur rekstur öldrunarheimila feli í sér skerðingar á þjónustu. Einkareksturinn sé því verri fyrir borgarana, launafólk og skattgreiðendur.

Framtíðarfyrirkomulag öldrunarþjónustu hefur verið mikið til umræðu í stjórnmálum. ASÍ og BSRB höfðu samband við prófessor Szebehely sem hefur rannsakað markaðsvæðingu og einkavæðingu í öldrunarþjónustu síðustu þrjá áratugina í Svíþjóð.

Drífa  fór yfir niðurstöðurnar úr rannsókn prófessorsins. Hún segir að í Svíþjóð hafi myndast bil milli almennings og stjórnmálanna. Almenningur þar hafi ítrekað lýst yfir vilja sínum til að öldrunarþjónusta sé á hendi hins opinbera, hinsvegar hafi stjórnmálamenn freistast til að bjóða þjónustuna út í nafni hagræðingar. Drífa lýsir afleiðingum þess sem alvarlegum.

„Hin pólitíska breyting átti sér stað á frjálshyggjutímabilinu upp úr 1990 þegar hætt var að líta á almenning sem borgara sem hefðu ákveðin réttindi og farið að líta á fólk sem viðskiptavini. Þá var líka horfið frá þeirri hugmyndafræði að allir hefðu aðgang að sömu góðu þjónustunni og jafnræði ætti að ríkja gagnvart borgurunum. Farið var að líta svo á að þau sem hefðu efni á gætu keypt sig fram fyrir raðir og keypt auka þjónustu. Það varð til þess að grunnþjónustan skertist og misræmi varð í þjónustunni eftir tekjum borgaranna. Þar með var sniðgengin hugmyndafræðin sem norrænu velferðarkerfin byggja á,“ segir Drífa í pistli sem hún skrifaði fyrir ASÍ.

Hagkvæmni í rekstri

Hún telur ríka tilhneigingu á Íslandi til að arðvæða þjónustuna með því að bjóða hana út til einkafyrirtækja sem telji sig geta rekið hana á hagkvæmari hátt en hið opinbera.

Þessi hagkvæmni segir Drífa, að náist í gegnum lægri laun og verr menntað starfsfólk, þjónustuskerðingu, lakari aðbúnað, undirmönnun og „auðveldari“ skjólstæðinga. Einkafyrirtæki sjái sér ekki hag í að koma inn á markaði í löndum eins og Noregi, sem hafa sett skýrar kröfur um gæði og mönnun hjúkrunarheimila.

Hér á landi er rík hefð fyrir því að félagasamtök sjái um rekstur öldrunarþjónustu. Drífa segir það hafa tekist vel en mikilvægt sé að gera skýran greinarmun á slíkum samökum og öðrum einkaaðilum. Félagasamtök reki þjónustuna ekki á viðskiptalegum forsendum og taki ekki hagnað út úr rekstrinum.

Drífa kveðst aldrei hafa fengið sannfærandi rök fyrir því að arðvæðing grunnþjónustu sé betri fyrir borgarana, launafólk eða skattgreiðendur.

mbl.is