Einelti í borgarráði gengið mjög nærri starfsmönnum

Reykjavíkurborg.
Reykjavíkurborg. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Erfið samskipti á vettvangi borgarráðs hafa gengið mjög nærri starfsmönnum og kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar. Ekki hefur tekist að tryggja sálfélagslegt öryggi starfsmanna á vettvanginum og margir hafa upplifað mikinn kvíða, sérstaklega fyrri tvö ár kjörtímabilsins, en það hefur síðan lagast. 

Þetta kemur fram í niðurstöðum á mati sálfræðistofunnar Líf og sál á starfsumhverfi og úttekt á sálfélagslegum áhættuþáttum starfsfólks borgarinnar sem kemur reglulega fyrir borgarráð. Niðurstöður áhættumatsins voru kynntar á fundi borgarráðs í gær. Matið var framkvæmt þannig að tekin voru viðtöl við viðmælendur, 14 starfsmenn sem reglulega koma fyrir borgarráð og auk þess sex kjörna fulltrúa, sem allir fengu sömu spurningar. 

Spurningarnar sneru meðal annars að líðan í starfi, starfsanda og samskiptum á fundum og utan funda og einelti og áreitni á vettvangi borgarráðs. 

Fram kemur í niðurstöðunum að langflestir viðmælendur telja að einelti hafi viðgengist á vettvangi borgarráðs. Lýsingar á framkomu og hegðun falli undir skilgreiningu á einelti á vinnustað: endurtekin neikvæð framkomu á vinnustað sem erfitt er að verjast. Alvarlegast sé að starfsmenn séu lokaðir inni í aðstæðum sem þeir hafa enga möguleika á að koma sér út úr nema með breytingu á verklagi og verður það til þess að varnarleysi þeirra sé algjört í þessum aðstæðum. 

Andrúmsloftið og hegðunin sem hafi verið höfð í frammi hafi skaðað málefnalega og frjóa umræðu á þessum vettvangi. Það hljóti að skapa mikið varnarleysi hjá starfsmönnum Reykjavíkurborgar að upplifa að hægt sé að niðurlægja einstaklinga með nafni í fjölmiðlum og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Gera þurfi mikla bragarbót svo starfsmenn geti óttalaust sinnt sínum skyldum. Það þurfi að vera skýrt að það sé ekki í verkahring stjórnmálamanna að skipta sér af starfsmannamálum borgarinnar. 

Talsvert hefur verið fjallað um samskiptavanda og einelti innan borgarinnar í fjölmiðlum. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur meðal annars verið sökuð um gróft einelti af Helgu Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóra borgarstjóra. 

Árið 2018 dæmdi héraðsdómur Reykjavíkurborg til þess að greiða starfsmanni Ráðhússins skaðabætur vegna slæmrar framkomu Helgu Bjargar. 

Segja siðareglur hafa verið virtar að vettugi 

Í bókun sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram undir liðnum kemur fram að mikið skorti á að meirihlutinn vinni með minnihlutanum líkt og tíðkist í langflestum sveitarfélögum landsins. Fyrirkomulagið dragi úr trausti og sé ólýðræðislegt. 

Afleiðingarnar eru þær að traust almennings á borgarstjórn er í lágmarki og mikið hefur verið um veikindi borgarfulltrúa. Siðareglur sem samþykktar voru í upphafi kjörtímabilsins hafa ekki verið virtar. Allt ber þetta að sama brunni. Umræðumenningin smitar út frá sér og hefur leitt til þess að fæstir treysta Borgarstjórn Reykjavíkur af stofnunum á Íslandi samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Hér þarf algerlega að breyta um kúrs,“ segir í bókuninni. 

Þá segir í bókun meirihlutans, Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, að mikilvægt sé að tryggja starfsmönnum borgarinnar og kjörnum fulltrúum gott og öruggt vinnuumhverfi. Taka þurfi þeim ábendingum sem komu fram alvarlega og vinna með tillögur til bætinga. Formaður borgarráðs muni í haust boða til vinnufundar um starfsanda og fagleg samskipti ef um það náist samstaða. 

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði einnig fram bókun þar sem fram kom að embættismaður borgarinnar hafði rofið trúnað með því að tjá sig um könnunina. Borgarráðsfulltrúar meirihlutans sögðu það kolrangt, enda hafði umræddur starfsmaður ekki séð niðurstöðurnar. 

mbl.is