Kjölur og Sprengisandur opna að hluta til

Kjölur hefur opnað að hluta til.
Kjölur hefur opnað að hluta til. Ljósmynd/Guðmundur Guðbrandsson

Vegagerðin hefur opnað Sprengisandsleið og Kjöl að hluta til. Enn er þó akstursbann í gildi á fjölmörgum hálendisvegum á meðan frost er að fara úr jörðu en bleyta í vegum getur einnig valdið því að vegir opnist seint.

Sprengisandsleið (26) er opin að sunnan upp að Versölum, norðan við Versali er enn akstursbann. Þá er búið að opna Kjöl (35) að norðan og upp að Hveravöllum en þar er enn verið að vinna að viðgerðum á skemmdum síðan í vetur.

Eins er búið að opna og hefla veginn frá Gullfossi og upp að Kerlingafjöllum. Einnig er búið að aflétta akstursbanni milli Kerlingafjalla og Hveravalla en þar verður ekki heflað fyrr en eftir helgi. Búast má við opnun þar á mánudag eða þriðjudag.

Þá er búið að opna leið að Veiðivötnum (F228) og Fjallabaksleið nyrðri (F208) frá Skaftártungu og inn að Eldgjá.

Að sögn Vegagerðarinnar er von á opnun fleiri leiða um eða eftir helgina. Nýtt hálendiskort Vegagerðarinnar má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert