Segja heilbrigðisráðherra fara með rangt mál

Krabbameinsfélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu með leiðréttingum og athugasemdum.
Krabbameinsfélagið hefur sent frá sér yfirlýsingu með leiðréttingum og athugasemdum.

Krabbameinsfélagið segir heilbrigðisráðherra fara með rangt mál í skýrslu sinni um breytingar á skipulagi og framkvæmd leghálskrabbameinsskimunar. Félagið hefur sent frá sér yfirlýsingu sem felur í sér athugasemdir og leiðréttingu við skýrsluna.

KÍ  bendir einnig á að skýrslan sýni glöggt hve ábótavant undirbúningi flutnings leghálsskimana var, frá Leitarstöð KÍ.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslunni var gefið í skyn að hlutaúttekt Embættis landlæknis á gæðamálum Leitarstöðvar hafi haft áhrif á samskipti Landspítala og LKÍ. KÍ fullyrðir hinsvegar að enginn skuggi hafi verið á samskiptum spítalans og félagsins vegna úttektarinnar.

Bárust engin svör frá ráðuneytinu

Texti úr tölvupóstskeyti framkvæmdastjóra KÍ var birtur í skýrslunni þar sem hann bauð þjónustu félagsins til að halda skimunum áfram lengur en ráðuneytið hafði kveðið á um. KÍ bendir á að í þessum sama pósti hafi framkvæmdastjórinn óskað eftir frekari upplýsingum frá ráðuneytinu um hver muni sinna rannsóknum og hvernig upplýsingagjöf til kvenna yrði háttað.

Ekki barst svar við póstinum og hélt LKÍ sig því við áður framkomna ákvörðun og sinnti skimun og tók á móti sýnum til 30. nóvember.

Þar sem KÍ fékk ekki upplýsingar um hvar rannsóknir færu fram eftir áramót taldi það sig ekki hafa ástæðu til að ætla annað en að gengið hefði verið frá málum um rannsóknir leghálssýna til framtíðar.

Rangfærsla í skýrslunni

Í skýrslunni kemur einnig fram að rannsóknarstofa LKÍ hafi hætt störfum í byrjun desember þótt starfssamningur hafi legið fyrir til ársloka 2020 og nefnt að það hafi leitt til þess að leghálssýni sem tekin voru undir lok ársins voru ekki rannsökuð heldur varðveitt til að unnt væri að rannsaka þau síðar.

Krabbameinsfélagið segir það alrangt. Sýni hafi verið rannsökuð á rannsóknarstofu LKÍ til 22. Desember og að síðustu dagar mánuðsins hafi verið nýttir í frágang vegna lokunar LKÍ.

Skýrslan gerir grein fyrir því að samningsgerð vegna rannsókna á leghálssýnum hafi fyrst farið af stað í lok nóvember síðasta árs þrátt fyrir að markmiðið væri að ekki yrði rof á þjónustu.

KÍ hvatti stofnanir og ráðuneytið til að vanda til verka

Í byrjun desember var ákveðið að taka upp danskar skimunarleiðbeiningar. Þar segir að öllum hafi mátt vera ljóst að þær breytingar kölluðu á endurforritun hugbúnaðarkerfa, skimunarskrár auk umfangsmikillar upplýsingagjafar til kvenna og sérfræðilækna. Slíkt tæki tíma, sem ekki var til staðar.

Krabbameinsfélagið gagnrýnir þessa greinagerð þar sem hvergi er minnst á ítrekaða hvatningu KÍ eða LKÍ til stofnana og ráðuneytisins um að vanda undirbúning og gefa honum nægilegan tíma.

Sérhæfð þekking flytjist út með rannsóknunum

Varðandi sérhæfða þekkingu þá kemur fram í skýrslunni að Landspítali hafi talið sig þurfa að ráða starfsfólk sem áður starfaði hjá LKÍ til að geta sinnt frumurannsóknum.

Krabbameinsfélagið bendir á að ástæða þess sé sérhæfing starfsfólksins. Fjöldi stöðugilda sé ekki afgerandi þáttur þegar rætt er um áhrif breytinga á sérhæfð störf heldur sú staðreynd að rannsóknirnar krefjist sérhæfðrar þekkingar sem hverfur úr landinu ef rannsóknirnar eru fluttar úr landi.

mbl.is