„Það er náttúran sem ræður“

Þessi hópur manna stillir sér upp fyrir myndatöku nálægt gosgígnum. …
Þessi hópur manna stillir sér upp fyrir myndatöku nálægt gosgígnum. Ekki er hægt að komast að myndavél mbl.is án þess að ganga yfir nýstorknað hraunið. mbl.is

Talsverður fjöldi fólks, sem lagt hefur leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum, hefur gengið yfir nýstorknað hraun til að komast að útsýnisstöðum. Í morgun sást maður taka á sprett undan flæðandi hrauninu, en hann hafði farið ískyggilega nálægt gígnum. Atvikið sást vel í myndavél mbl.is. 

Þá hefur nokkur fjöldi sést í grennd við myndavél mbl.is, en ekki er hægt að komast að myndavélinni án þess að ganga yfir hraunið. Einnig hefur heyrst að ferðamenn hafi í þónokkrum tilvikum gengið yfir hraunið til að komast að útsýnisstaðnum Gónhóli. 

Fólk á gangi yfir hraunið í átt að Gónhóli.
Fólk á gangi yfir hraunið í átt að Gónhóli. Ljósmynd/Timo Wolf

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnadeildar, furðar sig á slíku athæfi. 

„Við erum með leiðbeiningar á svæðinu sem útskýra hætturnar sem eru. Svo eru bæði landverðir og björgunarsveitarfólk auk lögreglumanna á ferð um svæðið. Það er ekki allan sólahringinn og vaktin er yfirleitt ekki mætt fyrr en svona upp úr hádegi, því það er yfirleitt ekki mikið af fólki á ferðinni þó það sé viðbúið að það mynstur breytist þegar það eru að koma ferðamenn,“ segir Rögnvaldur um þann viðbúnað sem er á svæðinu. 

„Við höfum séð allskonar hluti frá því að þetta byrjaði. Það sem við viljum halda að fólki og það sem kannski skiptir mestu máli er að við erum að eiga við náttúruna sem okkur ber að virða og umgangast af virðingu. Annars getur farið illa. Það þarf að fara varlega og vera ekki að taka óþarfa áhættur,“ segir Rögnvaldur. 

Beri virðingu fyrir aðstæðunum 

Hafið þið áhyggjur af því að það verði alvarleg eða mannskæð slys þegar fólk ber sig svona?

„Það eru að sjálfsögðu áhyggjur sem við erum búin að hafa frá því gosið hófst og þess vegna erum við með þessar vaktir og leiðbeiningar á svæðinu, það er tiltölulega auðvelt að komast þarna að. Það var alveg viðbúið að það myndi koma annar kúfur af svona fréttum þegar erlendir ferðamenn eru farnir að koma í meira mæli, margir gera sér kannski ekki eins mikla grein fyrir því hversu hættulegt þetta er. Svo náum við aldrei að stýra því hvað fólk gerir alveg 100%,“ segir Rögnvaldur. 

Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnadeildar.
Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnadeildar. Ljósmynd/Lögreglan

Hann segir það vel geta verið hættulegt að ganga á hrauninu. 

„Það er mikill hiti þarna, að labba ofan á þessu, þú getur skemmt skóna þína til dæmis ef sólinn bráðnar af. Það getur líka bara verið þunn skorpa sem þú ert að labba á og getur síðan stigið í gegnum og þá er 800 til 1.200 gráðu heitt hraun sem tekur við. Við vitum líka að hraunið er að renna í rásum sem við sjáum ekkert, það er alveg viðbúið að þú getur stigið í gegnum þunna skorpu,“ segir Rögnvaldur og bætir við:

„Það þarf að bera virðingu fyrir því landslagi og þeim aðstæðum sem þú ert í. Það er náttúran sem ræður og hún getur auðveldlega slasað og meitt fólk illa ef það ber ekki tilhlýðilega virðingu fyrir þeim náttúruöflum sem það er í.“

Hefur komið til skoðunar að auka gæslu á svæðinu?

„Ekki nýlega. Síðustu breytingar hafa allar verið í þá átt að draga úr, því það er kominn svona betri taktur í þetta. Þetta er alltaf til skoðunar og það eru stöðufundir þrisvar í viku þar sem við förum yfir stöðuna og metum hvort við þurfa að bæta í, draga úr eða slípa til,“ segir Rögnvaldur.  

mbl.is