Tíu tillögur um Elliðaárdal lagðar fram

Álkulegar álftir þegar OR tæmdi lónið.
Álkulegar álftir þegar OR tæmdi lónið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stýrihópur á vegum borgarráðs hefur lagt fram tíu tillögur varðandi Elliðaárdalinn og framkvæmd hans.

Hópurinn var skipaður lok síðasta árs í kjölfar þess að Orkuveita Reykjavíkur opnaði lokur Árbæjarstíflu með þeim upplýsingum að um framtíðarráðstöfun væri að ræða og að Árbæjarlón yrði tæmt varanlega.

Ekkert lón en því fyrir ofan stífluna og við þetta hefur orðið á mikil breyting á ásýnd svæðisins. Í kjölfarið risu deilur um réttmæti og ágæti þess að ráðast í þessa aðgerð, að því er kemur fram í skýrslu stýrihópsins sem var lögð fram á fundi borgarráðs í gær.

Í tillögunum kemur m.a. fram að haldin haldin verði hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis upp af norðurenda stíflunnar í Árbæ, lögð verði áhersla á að flýta sem mest aðskilnaði göngu- og hjólastíga í dalnum til samræmis við nýtt deiliskipulag og að Orkuveita Reykjavíkur hefji án tafar þá vegferð sem er skilgreind í Vatnslögum um niðurlagningu mannvirkja, í ljósi þess að OR er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám.

Að loknu því ferli sem lýst er í síðastnefndu tillögunni og að gefinni þeirri forsendu að stíflan standi áfram verði henni fundið nýtt hlutverk og gerð öllum aðgengileg. Kannaður verði möguleiki þess að gera stífluna að samgönguæð fyrir gangandi og hjólandi um miðbik dalsins. Þá verði afstaða tekin til framtíðar fallpípunnar sem liggur frá stíflunni að Elliðaárstöð og tryggt að af henni stafi ekki hætta.

„Endurspegla virðingu fyrir dalnum“

„Tillögurnar tíu sem stýrihópurinn leggur til endurspegla virðingu fyrir dalnum og lífríkinu sem þar er. Meðal tillagna er að borgin og OR geri samning um skil fyrirtækisins á dalnum, að haldin verði hönnunarsamkeppni um gerð áningar- og útivistarsvæðis, flýtingu á aðskilnaði göngu- og hjólastíga í dalnum. Þá leggur hópurinn til að stíflan standi áfram enda friðað mannvirki en hún verði gerð aðgengileg. Auk þess eru lagðar til skynsamlegar mótvægisaðgerðir, svo sem vöktun á lífríki, úrbætur til varnar mengun, góð vatnsgæði og æskilega vatnsstöðu. Hópnum er þakkað fyrir skynsamlegar niðurstöður og er borgarstjóra því falið að framfylgja tillögum stýrihópsins með forystu Orkuveitunnar,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.

Óskiljanlegt að fylla ekki lónið að nýju

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja niðurstöðuna um að fylla lónið ekki að nýju vera óskiljanlega.

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa gert skýra kröfu um að lónið verði fyllt að nýja og það án frekari tafa. Borgin er eigandi Elliðaánna og fer með 93% eignarhlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Þess vegna er þessi niðurstaða meirihluta hópsins að fylla ekki lónið að nýju óskiljanleg, enda kemur hún hvorki til móts við íbúa né lífríkið á staðnum. Þess utan er alveg skýrt að ekki var farið að lögum þegar lónið var tæmt varanlega en lónið er hluti að gildandi deiliskipulagi og því óheimilt að tæma það varanlega. Það er mat skipulagsfulltrúa í Reykjavíkurborgar að lög hafi verið brotin. Á þetta er m.a. bent í séráliti Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa og fulltrúa í starfshópnum,“ segir í bókuninni.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins bætti þessu við: „Það er þyngra en tárum taki að Árbæjarlón hafi verið tæmt í skjóli nætur. Vönduð skýrsla starfshóps um Elliðaárdal var lögð fram á fundinum þar sem málin voru reifuð. Það er álit borgarfulltrúa Miðflokksins að án tafar verði farið í að leiðrétta þá ólögmætu framkvæmd að tæma Árbæjarlónið og að yfirborði lónsins verði aftur komið í það horf sem það á að vera samkvæmt deiliskipulagi og það hefur verið í meira en hundrað ár.“

mbl.is