Tók fjóra daga að prófarkalesa átta blaðsíður

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.

Skýrsla Har­ald­ar Briem, fyrr­ver­andi sótt­varna­lækn­is, um breyt­ing­ar á skipu­lagi og fram­kvæmd skimun­ar fyr­ir krabba­meini í leg­hálsi, var fjóra daga í prófarkalestri áður en heilbrigðisráðuneytið birti hana.

Skýrslan er átta blaðsíður og kom út í dag, rúmum þremur mánuðum eftir að hennar var óskað.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi þennan seinagang á þingfundi dagsins.

„Loksins er hin langþráða skýrsla heilbrigðisráðherra, um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimana fyrir krabbameini, komin í hús. Það tók fjóra daga, frá því ráðuneytið sendi hana í prófarkalestur, að birta hana. Mig langar að benda á þetta sérstaklega, vegna þess að hún er átta síður.“

Reynt verði til þrautar að fá ráðherra til að svara

Andrés hélt áfram: „Átta síður tók fjóra daga að prófarkalesa, til að skjalið gæti litið dagsins ljós hér á þingi. En hún kom fyrir þinglok og ég vænti þess, virðulegi forseti, að það verði reynt til þrautar að fá ráðherra til að mæta hér í þingsal og gera grein fyrir efni skýrslunnar.“

Þess má geta að eitt og hálft ár er liðið frá því Andrés gekk úr Vinstri grænum, flokki Svandísar. Hann gekk til liðs við Pírata í febrúar á þessu ári.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, sté næst í pontu undir sama fundarlið og sagðist taka undir það sem Andrés hafði sagt.

„Það er dálítið furðulegt að þetta hafi tekið svona langan tíma. Það er ekki hægt að halda því fram að þetta hafi verið rétt ákvörðun, þegar maður les í gegn niðurstöðukafla þessarar skýrslu. Það er gott að hún er komin fram en það er með ólíkindum að hún hafi tekið allan þennan tíma miðað við hversu stutt hún er.“

Fjallað er um skýrsluna hér:

mbl.is