„Áttum von á strekkingi, en ekki svona“

Hjólhýsin sem fuku voru á bílaplaninu hjá Útilegumanninum í Mosfellsbæ.
Hjólhýsin sem fuku voru á bílaplaninu hjá Útilegumanninum í Mosfellsbæ. mbl.is/Sigurður Unnar

Milljónatjón varð í gærkvöldi þegar fjögur hjólhýsi fuku á bílaplaninu hjá versluninni Útilegumanninum í Mosfellsbæ. Hafdís Elín Helgadóttir, framkvæmdastjóri verslunarinnar, segir að alla vega tvö hjólhýsi hafi hreinlega tekist á loft. Hún segir starfsmenn fyrirtækisins vana miklum vindi á Tungumelum, en hviðurnar í gær hafi verið rosalega sterkar.

Hafdís segir að þar sem búist hafi verið við einhverjum vindi um kvöldið hafi verið gengið frá öllum hjólhýsunum og þau búin undir það. Þannig hafi fætur verið settir niður o.s.frv. Allir starfsmenn hafi svo verið farnir heim þegar tilkynning barst á áttunda tímanum um að hjólhýsin hafi fokið.

„Svona mikill vindur, það kom verulega á óvart. Við áttum von á strekkingi, en ekki svona,“ segir Hafdís um veðrið í gær. Segir hún að hviðurnar hafi verið mun sterkari en þau hafi átt von á.

Tveggja tonna hjólhýsi tókst á loft

Tvö hjólhýsi fóru á hliðina og ultu, en Hafís segir að tvö hafi hreinlega tekist á loft. Þá segir hún þetta ekki hafa verið einhver lítil og létt hjólhýsi og meðal annars hafi verið eitt stórt tæplega tveggja tonna hjólhýsi tekist á loft. Segir hún að það hafi verið glænýtt hjólhýsi sem hafi aðeins átt eftir að afhenda kaupanda. Hin hjólhýsin hafi verið í ásetningu eða viðgerð, en lítið er um hjólhýsi hjá Útilegumanninum núna þar sem flestöll eru hreinlega uppseld að sögn Hafdísar.

Tvö hjólhýsi tókust hreinlega á loft og fuku í veðrinu …
Tvö hjólhýsi tókust hreinlega á loft og fuku í veðrinu í gær. mbl.is/Sigurður Unnar

„Það var mjög gott sumar í fyrra, en það er enn betra sumar í ár með sölu,“ segir hún. Það hafi því verið eins konar lán í óláni að ekki hafi verið fleiri hjólhýsi á bílaplaninu að hennar sögn. „Ég hefði ekki boðið í ef þetta hefði verið fyrir einum og hálfum mánuði. Þá var allt troðið hjá okkur á planinu,“ segir hún.

Tjónið hleypur á milljónum og jafnvel tugum milljóna, en Hafdís segir að nýja hjólhýsið kosti um 8-9 milljónir. Hin hjólhýsin séu aðeins minni, eða frá 1,2 tonnum og upp í tæplega tvö tonn.

Hvert og eitt tjón verður nú skoðað að sögn Hafdísar, en það verður gert með tryggingafélagi fyrirtækisins og tryggingafélögum viðskiptavinanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert