Verst hvað ríkisstjórnin þurfti að fórna miklu

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldóru Mogensen, þingflokksformanni Pírata, þykir miður hve mörgum málum ríkisstjórnin þurfti að fórna vegna ósættis innan meirihlutans. Píratar fara þó nokkuð sáttir frá borði en Alþingi mun funda fram eftir degi.

Halldóra heldur að fram undan sé langur dagur hjá Alþingi og að fundað verði langt fram eftir kvöldi. Formenn þingflokkanna komust að samkomulagi í gær um að þinginu skyldi lokið í dag.

„Þetta var bara ágæt niðurstaða. Þinglok eru náttúrulega alltaf málamiðlanir en við erum nokkuð sátt,“ sagði Halldóra um samkomulagið.

Það verða nokkrir þingfundir í dag og þótt stjórnarfrumvörp verði aðallega til meðferðar á þeim fyrsta sem hófst klukkan 10, verða þingmannamál frá stjórnarandstöðunni á dagskrá á öðrum þingfundi.

Stór mál drepin

„Mér finnst verst hvað ríkisstjórnin þurfti að fórna mörgum málum vegna ósætti þeirra á milli,“ sagði Halldóra. „Stór mál sem var búið að lofa þjóðinni voru bara drepin.“ 

Þar nefnir hún frumvarpið um afglæpavæðingu fíkniefna, sem Píratar hafa stutt. Einnig stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra en það hefur ekki enn komist út úr nefnd. Þar sem búið er að semja er ljóst að það frumvarp verður ekki á dagskrá þingsins og dagar því uppi. 

Þá nefnir hún frumvarpið um hálendisþjóðgarðinn. Þótt það sé á dagskrá er búið að ákveða að það verði ekki afgreitt heldur verði því vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnu. Halldóru skilst að mikið eigi að tala um málið á þinginu í dag. „Þetta er samt ekkert annað en frávísun,“ bætir hún við.

mbl.is