„Listinn væri sterkari með fleiri konur“

Sigþrúður Ármann hafnaði í 6. sæti á lista í prófkjöri …
Sigþrúður Ármann hafnaði í 6. sæti á lista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi Ljósmynd/Aðsend

Sigþrúður Ármann kvaðst fyrst og fremst þakklát fyrir þann stuðning sem hún fékk í fyrsta prófkjöri sínu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi en hún náði 6. sæti listans. Sigþrúður segir stuðninginn hafa komið úr ólíkum áttum frá fólki á ólíkum aldri.

„Yfir helmingur kjósenda setti mig á lista. Ég fékk flest atkvæði og góða kosningu í þriðja sætið svo það er greinilegt að kjósendur vildu sjá mig ofarlega á listanum.“

„Ekki alveg í mínum anda“

Aðspurð hvort Sigþrúður hefði í hyggju að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi alþingiskosningum sagðist hún ekki komin svo langt.

„Ég stefndi vissulega hærra, var að sækjast eftir þriðja sætinu og þá þingmannssæti,“ sagði hún og bætti svo við að hún hefði viljað sjá hlut kvenna sterkari í prófkjörinu.

Þess má geta að það var einungis ein kona sem náði kjöri í efstu fimm sætin. „Það er ekki alveg í mínum anda og ég held að listinn væri sterkari með fleiri konur í efstu sætum,“ sagði Sigþrúður um kynjahallann.

Kraftur í Kraganum

Þegar sitjandi þingmenn bjóða sig fram í prófkjöri er algengt að þeir raðist í efstu sætin og erfitt er þá fyrir nýja aðila að koma inn.

Sigþrúður hefði verið til í að fá meiri tíma frá því að framboðsfresturinn rann út og þar til prófkjörið hófst. „Ég nýtti tímann eins vel og ég gat en ég held að ég hefði jafnvel náð lengra ef ég hefði haft meiri tíma.“

Sigþrúður segist finna fyrir krafti í Kraganum, meðbyr og jákvæðni. Í síðustu alþingiskosningum tapaði Sjálfstæðisflokkurinn fylgi á svæðinu þannig að þeir fengu aðeins 4 þingsæti, en ekki 5-6 venju samkvæmt. Sigþrúður segist telja að flokkurinn eigi inni í kjördæminu og stefnan sé að ná til baka 5. og 6. sætinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina