Malbika akrein Miklubrautar til vesturs

Umferð á Miklubraut.
Umferð á Miklubraut. mbl.is/Sigurður Bogi

Annað kvöld, 14. júní, og aðfaranótt þriðjudagsins 15. júní er stefnt á að malbika akrein á Miklubraut til vesturs frá gatnamótum við Sæbraut og fram yfir gatnamót við Skeiðarvog. 

Um er að ræða 820 metra kafla sem byrjar á brúnni yfir Sæbraut. Akreininni og aðliggjandi römpum og slaufum verður lokað á meðan framkvæmd stendur. Hámarkshraði verður lækkaður fram hjá framkvæmdasvæði og viðeigandi merkingar og hjáleiðir verða settar upp. 

Aðfaranótt þriðjudags er einnig stefnt að því að fræsa vinstri akrein á Vesturlandsvegi til norðurs. Kaflinn er um 900 metra langur og byrjar til móts við Húsasmiðjuna í Grafarholti. Akreininni verður lokað meðan á framkvæmd stendur. 

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að vinnusvæðin séu þröng og menn og tæki verði við vinnu nálægt akstursbrautum. 

mbl.is