Snæviþakinn Fáskrúðsfjörður

Hvítt var yfir á Fáskrúðsfirði í dag.
Hvítt var yfir á Fáskrúðsfirði í dag. Mbl.is/Albert Kemp

Snjóað hefur á Fáskrúðsfirði og víðar á Austur- og Norðausturlandi í dag. Veðurfræðingur segir útlit fyrir að áfram verði kalt á svæðinu næstu daga. 

Í morg­un vöknuðu íbú­ar í Mý­vatns­sveit upp við að snjóað hafði um nótt­ina. Þá snjóaði m.a. á Fáskrúðsfirði í dag. 

„Það er kannski ekki mikið á láglendi, en víða frá Eyjafirði og alveg austur á firði, er slydda eða snjókoma. Það hefur náð niður í Fagradal, sem er að verða svolítið hvítur. Það hefur kólnað svolítið núna og það er að grána, en það tekur upp í nótt og í fyrramálið þegar dregur úr úrkomu þar sem jörðin er alveg ófrosin undir,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Það er ekki að fara hlýna þarna fyrr en bara seint í vikunni, líklega ekki fyrr en undir helgi,“ segir Óli, en verulega dregur úr úrkomu í fyrramálið. 

Talsverður kuldi er víða á Austur- og Norðausturlandi. 

„Uppi á Öræfum er hitinn um frostmark, það hefur kólnað á Austfjörðum undanfarið og þar er nálægt frostmarki, það er það nokkuð víða með austurströndinni og svo hækkar þetta aðeins eftir því sem sunnar dregur, í kringum þrjár gráður við Djúpavog en er svo komið í fimm gráður í Hornafirði. Að sama skapi er hitinn mildari vestar á Norðausturlandi,“ segir Óli. 

Spurður hvort sambærilegar kuldatíðir séu algengar á þessum tíma árs segir Óli: 

„Þetta kemur þó nokkuð oft fyrir, júní er alveg þekktur fyrir að vera frekar kaldur. Það hittir frekar illa á að vera með svona mikla úrkomu og þetta mikinn kulda samfara. Það eru oft þurrari norðanáttir sem gefa okkur kulda en gefa okkur ekki úrkomu. Þegar þetta fer saman gránar aðeins og snjóar svolítið. Þetta kemur fyrir með nokkurra ára millibili vanalega.“

mbl.is