500 jarðskjálftamælar á Hengilssvæðinu

Kortið sýnir hvar mælarnir eru staðsettir á Hengilssvæðinu.
Kortið sýnir hvar mælarnir eru staðsettir á Hengilssvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Settir hafa verið upp 500 jarðskjálftamælar á Hengilssvæðinu og er þetta stærsta og þéttasta net mæla sem sett hefur verið upp hér á landi.

Mælarnir bætast við um 35 mæla Orku náttúrunnar, Veðurstofu Íslands og COSEISMIQ-verkefnisins sem þegar voru á svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Til samanburðar má nefna að 56 mælar fylgjast með jarðhræringum á Reykjanesi, meðal annars í tengslum við eldgosið í Geldingadölum. Til viðbótar við hefðbundna jarðskjálftamæla eru nú ljósleiðarar einnig nýttir til mælinga á jarðhræringum í Henglinum.

Uppsetning mælanna er hluti af DEEPEN-verkefninu sem ætlað er að rannsaka rætur jarðhitakerfa og safna þekkingu sem nýta má þegar farið verður að bora dýpri holur við nýtingu jarðhita.

Með djúpborun má komast hjá því að bora margar grynnri holur á stærra svæði. Verkefnið er styrkt af alþjóðlega sjóðnum Geothermica, í gegnum Rannís. Sjóðurinn er samstarfsverkefni nokkurra Evrópulanda, auk Bandaríkjanna, sem veitir reglulega styrki til jarðhitarannsókna á borð við DEEPEN.

Ljósmynd/Aðsend

„DEEPEN-verkefnið miðar að því að auka skilning okkar á umhverfinu við rætur jarðhitasvæða þar sem hitinn og vatnið mætast. Við viljum bæta aðferðir við jarðhitaleitina, sérstaklega þegar um er að ræða boranir dýpra niður í jarðhitakerfin. Þessar rannsóknir munu væntanlega auðvelda okkur að stækka jarðhitasvæðin niður á við og gera okkur kleift að lengja líftíma virkjana Orku náttúrunnar, dótturfyrirtækis OR, án þess að raska þurfi nýjum svæðum,“ segir Vala Hjörleifsdóttir, forstöðumaður Nýsköpunar og framtíðarsýnar hjá OR, í tilkynningunni.

Vala segir að niðurstaðan úr verkefninu nýtist þegar ráðist verður í þriðja hluta djúpborunarverkefnisins IDDP (Iceland Deep Drilling Project), sem unnið er í samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar, Orkustofnunar og Equinor.

IDDP III verður rekið í virkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum þar sem bæði rafmagn og heitt vatn er framleitt úr háhitaauðlindinni en Hellisheiðarvirkjun er meðal stærstu jarðhitavirkjana í heiminum. Ein af megináherslum ON er að stuðla að ábyrgri nýtingu auðlinda og verndun umhverfisins.

mbl.is