Borgarbúar hvattir til að fagna 17. júní með vinum og fjölskyldu

Bassi Maraj, Patrekur Jaime og Binni Glee.
Bassi Maraj, Patrekur Jaime og Binni Glee. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hátíðarhöld í Reykjavík 17. júní í ár verða með svipuðu sniði og á síðasta ári vegna samkomutakmarkana. Borgarbúar eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða í fánalitunum. 

Morgunathöfn verður í beinni útsendingu á RÚV frá Austurvelli. Athöfnin er hefðbundin, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun flytja ávarp og fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið. 

Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig að leiði Jóns og Ingibjargar í Hólavallakirkjugarði að morgunathöfninni lokinni. Alexandra Briem forseti borgarstjórnar mun flytja ávarp og skátar standa heiðursvakt. 

Fram kemur í tilkynningu að dagskrá verði á Klambratúni og í Hljómskálagarði. DJ Dóra Júlía mun sjá um tónlist á Klambratúni og DJ De La Rosa mun gera slíkt hið sama í Hljómskálagarði. Í báðum görðum munu gestir geta gætt sér á veitingum frá matarvögnum á vegum Götubitans og fylgst með sirkuslistafólki Hringleiks leika listir sínar. 

mbl.is