Hættir sem bæjarfulltrúi vegna eineltis

Sif Huld Albertsdóttir.
Sif Huld Albertsdóttir. Ljósmynd/Samsett

Sif Huld Albertsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks hjá Ísafjarðarbæ, hefur sagt upp störfum í bæjarstjórn vegna eineltis embættismanns bæjarins í hennar garð og hefur hún lagt fram bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæ.

Hún segir viðbrögð bæjarins við eineltinu ekki síður ástæðu þess að hún hætti en eineltið sjálft.

Hefðu getað gripið inn í 

Sif segir í yfirlýsingu að bæjaryfirvöld hafi ekki brugðist við eineltinu þegar hún sagði frá því fyrst og þannig hafi bærinn misst af tækifæri til þess að koma í veg fyrir að eineltið yrði alvarlegt og langvarandi.

Hún segir að stjórnsýsla bæjarins hafi brugðist sér í málinu og því teysti hún sér ekki til þess að starfa innan stjórnsýslunnar lengur, í þágu bæjarbúa.

Yfirlýsing Sifjar í heild:

„Ástæðan fyrir því að ég biðst lausnar er sú að í tæpt hálft ár hefur staðið yfir rannsókn á einelti af hálfu embættismanns Ísafjarðarbæjar gegn mér. Ísafjarðarbær fékk ráðgjafarfyrirtækið Attentus til að taka við málinu og greina þann djúpstæða vanda sem við stóðum frammi fyrir. Í lok mars kynnti svo Attentus niðurstöðu ítarlegrar greiningar sem var unnin með viðtölum við vitni og aðra tengda málinu. Niðurstaðan var að um einelti var að ræða og ljóst að ég hafði ítrekað vakið athygli á þessum samskiptum.

Í skýrslunni var einnig niðurstaða að sveitarfélagið hefði brugðist með því að aðhafast ekki í málinu fyrr, þar sem ég hafði oft sagt frá erfiðum og djúpstæðum samskiptavanda. Ef sveitarfélagið hefði brugðist við strax hefði það getað orðið til þess að eineltið hefði ekki orðið eins alvarlegt og langvarandi. Ég gaf strax út að ég væri tilbúin í sáttameðferð en fékk þau skilaboð að hinn aðilinn væri ekki tilbúinn til sátta. En eftir um sjö vikna töf vegna andsvara og seinagangs leggur Ísafjarðarbær til sáttameðferð.

Ísafjarðarbær hefur ekki beðist formlega afsökunar á því hvernig málið hefur þróast, hvað þá á eineltinu sjálfu. Mér finnst stjórnsýslan hafa brugðist í þessu máli og því treysti ég mér ekki til að starfa áfram sem bæjarfulltrúi.

Vegna þessa seinagangs og aðgerðaleysis hef ég ákveðið að gera bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæ, þar sem niðurstaðan var ótvírætt langvarandi einelti. Ég hef falið Sævari Þór Jónssyni lögmanni að gæta réttar míns í málinu.

Ég vil þakka bæjarfulltrúum kærlega fyrir samstarfið síðustu þrjú árin og ég vil sérstaklega þakka íbúum Ísafjarðarbæjar innilega fyrir það traust að fá að starfa í þeirra þágu, en á meðan ég get ekki treyst kerfinu get ég ekki unnið fyrir kerfið í þágu íbúanna.“

mbl.is