Hegðun erlenda ferðamannsins ekki til fyrirmyndar

Erlendi ferðamaðurinn sem vakti athygli þegar hann hljóp út á …
Erlendi ferðamaðurinn sem vakti athygli þegar hann hljóp út á hraunið við gosstöðvarnar. Facebook

„Það er spurning hvar við ættum að herða gæslu því að ummál þessa hrauns er ansi mikið og fólk er víða,“ sagði Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurnesjum, spurður hvort mögulega væri þörf á hertri gæslu við gosstöðvarnar í kjölfar fregna af erlenda ferðamanninum sem fór út á hraunið.

„Við erum með landverði, björgunarsveitarfólk og lögreglumenn í kringum svæðið en það verður hreinlega að horfa til þess að fólk átti sig á því að þetta er stórhættulegt.“ Þá segir hann að það að fara út á hraunið sé gífurlega hættulegt og hegðun erlenda ferðamannsins hafi ekki verið til fyrirmyndar.

Eldgosið á Reykjanesi.
Eldgosið á Reykjanesi. mbl.is/Árni Sæberg

Opið að gosstöðvum í dag

Þá er opið er að gosstöðvum í dag en fólki verður beint að leið B, þar sem gönguleið A þykir ekki örugg. Lokað var fyrir umferð inn á gossvæðið í Geldingadölum í gær af öryggisástæðum. Sú ákvörðun var tekin í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eftir að hraun fór að flæða upp úr sunnanverðum Geldingadölum, yfir gönguleið A og niður í Nátthaga. Þá segir Gunnar að gærdagurinn hafi gengið vel, „fólk tók tilmælum og leiðbeiningum býsna vel og það gekk ágætlega“.

„Gönguleið B er leið sem við studdumst við í vor, fyrstu vikur gossins, og við ýmist notuðum þá leið eða gönguleið A,“ sagði hann. „Leið A var lagfærð og gerð greiðfær sem reyndist vel og fækkaði slysum, en leið B er torfærari og aðeins lengri.“

Þá segir Gunnar að leið B, sem opin er í dag, sé í raun meira fyrir vant göngufólk. Göngu­leið A hef­ur verið aðal­göngu­leiðin að gossvæðinu mest­an gos­tím­ann, en byrjað var að und­ir­búa lagn­ingu nýrr­ar göngu­leiðar á svipuðum stað og göngu­leið B hef­ur verið, þ.e. vest­an meg­in í Fagra­dals­fjalli.

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá bendir Gunnar á að fyrir þá sem ekki treysta sér upp þessa erfiðari leið sé auðveld gönguleið inn í Nátthaga, en þangað streymir hraunið niður frá Geldingadölum og syðri Meradölum. „Það er í sjálfu sér töluverð upplifun fyrir fólk sem ekki treystir sér til þess að labba upp á fjall.“ Hann segir þó að kaðall sé enn til staðar á brattasta kafla leiðar B frá því í vor og geti fólk því stuðst við hann á leið sinni upp.

mbl.is