Hjartnæmt að sjá samstöðu danska liðsins

Liðsfélagar Eriksens umkringdu hann á vellinum er læknar hlúðu að …
Liðsfélagar Eriksens umkringdu hann á vellinum er læknar hlúðu að honum. AFP

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir það hafa verið hjartnæmt að fylgjast með samstöðu danska landsliðsins í knattspyrnu þegar Christian Eriksen, leikmaður liðsins, fékk hjartastopp í leik liðsins gegn Finnlandi á EM í fótbolta á laugardag. 

Guðni sendi Eriksen og fjölskyldu hans hvatningar- og batakveðju eftir atvikið. 

„Báðum þessum liðum óska ég góðs gengis í keppninni og einnig Svíum, þriðju Norðurlandaþjóðinni sem þar tekur þátt,“ segir Guðni í færslu á Facebook þar sem hann fer yfir störf sín í nýliðinni viku. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi Chirstian Eriksen og fjölskyldu …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendi Chirstian Eriksen og fjölskyldu hans hvatningar- og batakveðju eftir að leikmaðurinn fékk hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í fótbolta á laugardag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingstörfum lauk aðfaranótt sunnudags og þakkar Guðni þingheimi samstarf á sviði löggjafarvalds og óskar þingmönnum alls velfarnaðar. Áform um breytingar á stjórnarskrá komu ekki til frekari umræðu og nefnir Guðni dæmi um ákvæði um íslenska tungu og tilteknar breytingar á ákvæðum um forseta Íslands, meðal annars í anda tillagna sem ræddar voru við upphaf þessarar aldar. „Fróðlegt verður að sjá hvernig stjórnarskrármál þróast,“ segir forsetinn.


mbl.is