Ísland langneðst Norðurlandaþjóða í frelsi fjölmiðla

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfi fjölmiðla er ekki eins og best verður á kosið hér landi að mati Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, nýkjörins formanns Blaðamannafélags Íslands (BÍ). Félagið stendur fyrir ráðstefnu í Norræna húsinu þar sem fjölmiðlafrelsi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum er til umræðu. Streymi frá fundinum má finna neðst í fréttinni.

Staðan er enda verri hér en hjá hinum norrænu þjóðunum ef marka má alþjóðlegan lista yfir fjölmiðlafrelsi, þar sem Noregur er í fyrsta sæti, Finnland í öðru, Svíþjóð í þriðja og Danmörk í fjórða. Ísland situr í sextánda sæti listans, langneðst Norðurlandaþjóða. 

Sigríður Dögg sagði í opnunarávarpi sínu á ráðstefnu BÍ að víða í heiminum væri því vel fagnað að vera í 16. sæti þessa lista, t.a.m. í Hvíta-Rússlandi, en á Íslandi væri slíkur árangur óviðunandi, sérstaklega þegar löndin sem við bærum okkur saman við væru svo miklu ofar á listanum. 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, flytur opnunarávarp á ráðsetfnu …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, flytur opnunarávarp á ráðsetfnu félagsins um fjölmiðlafrelsi á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Skjáskot/BÍ

Kastljósið beinist að Samherja

Sigríður nefndi svo aðför útgerðarfélagsins Samherja gegn fjölmiðlamönnum hér á landi, sér í lagi Helga Seljan fréttamanni, sem undanfarna mánuði hefur fjallað um meint brot fyrirtækisins í Namibíu. 

Þá sagði Sigríður að ekki aðeins væru það fyrirtækjarekendur með djúpa vasa sem reyndu að leggja stein í götu blaðamanna hér á landi heldur einnig alþingismenn. Þar vísaði Sigríður í orð Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur iðulega komið Samherja til varnar, og sagt aðför Samherja að blaðamönnum til jafns við heiðarlega rannsóknarblaðamennsku sem beinist að félaginu.

mbl.is