Jarðvísindafólk í eldlínunni verðlaunað

Jarðvísindafólk við Háskóla Íslands hlaut í morgun ársfundarverðlaun Háskóla Íslands. …
Jarðvísindafólk við Háskóla Íslands hlaut í morgun ársfundarverðlaun Háskóla Íslands. Jarðvísindafólk skólans hefur verið í eldlínunni í orðsins fyllstu merkingu undanfarna mánuði við rannsóknir og túlkun á jarðhræringum á Reykjanesi og í eldsumbrotum þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðvísindafólk Háskóla Íslands var í morgun verðlaunað fyrir framúrskarandi frumkvöðlastarf á sviði rannsókna í jarðvísindum, fagmennsku og miðlun þekkingar til samfélags og stjórnvalda. 

Verðlaunaafhendingin fór fram á ársfundi háskólans en hefð hefur skapast fyrir því á fundinum að veita hópum innan skólans viðurkenningu fyrir frumkvæði og forystu í störfum sínum. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin eru veitt. 

„Jarðvísindafólk skólans hefur verið í eldlínunni í orðsins fyllstu merkingu undanfarna mánuði við rannsóknir og túlkun á jarðhræringum á Reykjanesi og í eldsumbrotum þar, líkt og í öðrum náttúruhamförum á síðustu árum og áratugum. Að baki liggur þrotlaus vinna stórs hóps sem er í fremstu röð á sínum fræðasviðum í heiminum og hefur  skapað nýja þekkingu á gangvirki náttúruaflanna sem eftir er tekið um allan heim,“ segir í tilkynningu frá HÍ. 

Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd alls …
Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti Jarðvísindadeildar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd alls jarðvísindafólks við HÍ ásamt þeim Önnu Jónu Baldursdóttur, Ármanni Höskuldssyni, Bryndísi Brandsdóttur, Chiara Lanzi, sem var fulltrúi doktorsnema, Eniko Bali, Esther Ruth Guðmundsdóttur, Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, Halldóri Geirssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Rikke Pedersen, Steffen Mischke, Sæmundi Ara Halldórssyni og Þorvaldi Þórðarsyni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Þar segir einnig að hópurinn hafi sömuleiðis verið óþreytandi við að veita bæði stjórnvöldum og almannavörnum ráðgjöf um viðbrögð við náttúruvá og skýrt framvindu mála fyrir landsmönnum í viðtölum í fjölmiðlum á degi hverjum. 

„Þarna eru á ferðinni jarðfræðingar, jarðeðlisfræðingar, jarðskjálftafræðingar og jarðefnafræðingar, svo dæmi séu tekin, sem hafa unnið þrekvirki undanfarna mánuði og undirstrika með þekkingu sinnu, fagmennsku, reynslu og ósérhlífni mikilvægi og gæði þess öfluga starfs sem unnið er í Háskóla Íslands alla daga,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, við veitingu verðlaunanna í morgun. 

„Ég er þess fullviss að þetta virka samtal sem jarðvísindafólkið okkar hefur átt við samfélagið í gegnum stjórnvöld og fjölmiðla skipti miklu máli. Þetta á sérstaklega við á tímum þegar upplýsingaóreiða og vantraust í garð vísinda virðist fara vaxandi,“ sagði Jón Atli einnig. 

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sagði að auk þess að …
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sagði að auk þess að sinna mikilvægum rannsóknum hafi jarðvísindafólk HÍ verið óþreytandi að miðla upplýsingum og þekkingu út í samfélagið, eins og Háskóli Íslands hefur alltaf lagt áherslu á. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti jarðvísindadeildar, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd alls jarðvísindafólks við HÍ ásamt þeim Önnu Jónu Baldursdóttur, Ármanni Höskuldssyni, Bryndísi Brandsdóttur, Chiöru Lanzi, sem var fulltrúi doktorsnema, Eniko Bali, Esther Ruth Guðmundsdóttur, Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, Halldóri Geirssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni, Rikke Pedersen, Steffen Mischke, Sæmundi Ara Halldórssyni og Þorvaldi Þórðarsyni.

Á fundinum var ný stefna Háskóla Íslands einnig kynnt. Yfirskrift nýrrar stefnu er „Betri háskóli – betra samfélag“ og er hún til næstu fimm ára. Stefnan byggist á fjórum megináherslum og henni fylgja skýrir mælikvarðar um árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert