Mikil þörf á að fjölga blóðgjöfum

Blóðgjafar í blóðbankanum.
Blóðgjafar í blóðbankanum. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Alþjóðlegi blóðgjafadagurinn er haldinn hátíðlegur 14. júní ár hvert, en dagurinn er haldinn til heiðurs blóðgjöfum um heim allan sem gefa af óeigingirni blóð og blóðhluta sem síðan er gefið til sjúkra.

Dagurinn var valinn til heiðurs Karl Landsteiner, sem fæddist á þessum degi, en hann innleiddi ABO-blóðflokkakerfið árið 1900.

Í fréttatilkynningu frá Blóðgjafafélagi Íslands, sem send var af þessu tilefni segir að mikil þörf sé á að fjölga blóðgjöfum, og að því sé tilvalið að nýta þennan hátíðisdag til að ganga í hóp „vaskrar sveitar blóðgjafa sem tryggja samfélaginu dýrmætt framboð af blóði og blóðhlutum. Án framlags okkar góðu blóðgjafa yrði erfitt, jafnvel ómögulegt, að framkvæma skurðaðgerðir og aðstoða einstaklinga í gegnum erfið veikindi,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að sumartíminn reynist gjarnan erfiður fyrir starfsemi Blóðbankans þar sem ferðalög eru tíðari og blóðgjafar síður heima við en annars, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert