„Það er alltaf eitthvað sem orsakar svona“

Christian Eriksen fór í hjartastopp en endurlífgunartilraunir báru árangur og …
Christian Eriksen fór í hjartastopp en endurlífgunartilraunir báru árangur og var hann með meðvitund þegar hann var fluttur á spítala á laugardaginn. AFP

„Hann dettur alveg slakur niður og ber ekki fyrir sig hendurnar. Það er náttúrulega alltaf grunsamlegt. Það er nánast eins og menn séu skotnir og þeir lyppast niður. Um leið og maður sér það þá náttúrulega vaknar grunur um að það sé eitthvað alvarlegt á seyði,“ segir Reynir Björnsson læknir, sem hefur starfað í kringum fótboltann og verið í læknateymi landsliðanna.

Christian Eriksen, leikmaður danska landsliðsins í knattspyrnu, fór í hjartastopp í leik liðsins gegn Finnlandi á EM í fótbolta á laugardag. Christian var fluttur á spítala og er líðan hans nú stöðug.

Reynir Björnsson læknir.
Reynir Björnsson læknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í lausu lofti ef það finnst engin orsök“

Ekki er vitað hvað orsakaði hjartastopp Christians. 

„Það er náttúrulega alltaf eitthvað sem orsakar svona, það er eitthvað í leiðslukerfi eða einhver hjartasjúkdómur sem menn bara finna ekki. Oftast kemur þetta út af sjúkdómum í hjartavöðvanum sjálfum, menn geta verið með meðfædda stækkun á vöðvanum og það getur ýtt undir svona, það geta verið alls konar breytingar á hjartalínuriti sem geta aukið áhættu á hjartastoppi. Þannig að þetta hefur með hjartavöðvann og svona rafkerfi hjartans að gera,“ segir Reynir. 

Simon Kjær fylgist með læknum hlúa að Christian Eriksen á …
Simon Kjær fylgist með læknum hlúa að Christian Eriksen á laugardaginn. AFP

Hann segir að það sé auðvitað óþægilegt fyrir fólk ef orsökin finnst ekki. „Maður er náttúrulega alltaf svolítið í lausu lofti ef það finnst ekkert og menn geta ekki brennt fyrir eða lagað neitt.“

Umgjörð breytt í kjölfar hræðilegra atvika

Reynir segir mikinn aðbúnað vera á landsleikjum. Eftirlitsmenn frá UEFA mæti á staðinn og athuga með aðstæður. Þeir skoði meðal annars sjúkrabílinn sem þarf að vera á staðnum og hvort allt sé til taks í honum.

Leikmennirnir fara í blóðprufur, áreynslupróf og hjartaómanir ár eftir ár. Þrátt fyrir það sé ekki hægt að koma í veg fyrir öll atvik.  

„Allri umgjörð var breytt í kjölfarið á nokkrum hræðilegum atvikum sem urðu. Það var eitt alla vega í Afríku, ég man ekki alveg hvenær það var, kannski um 2002. Þá hnígur maður niður og fer í hjartastopp og menn koma inn á og eru eitthvað að skoða hann. Svo er kallað á börumenn og farið að flytja hann út af og það þurfti að fara með hann yfir allan völlinn og lengst út af vellinum og þá fyrst var farið að endurlífga. Það eru alveg nokkur svona dæmi, þetta er bara minnisstætt,“ segir Reynir. „Út frá því eru allar þessar kröfur gerðar í dag.“

Christian Eriksen.
Christian Eriksen. AFP

Reynir segir að á leikjum félagsliða á Íslandi þurfi samkvæmt reglum KSÍ alltaf að vera heilbrigðisstarfsmaður á vellinum, sem oftast séu sjúkraþjálfarar. Þá eigi að vera hjartastuðtæki á öllum völlum. 

Helsta einkennið að viðkomandi svarar ekki

„Það sem er svo frábært í þessu tilfelli er að menn átta sig strax á því hvað er í gangi,“ segir Reynir. Hann segir mjög mikilvægt að fólk fari á námskeið og læri fyrstu hjálp. 

Mikilvægast sé að kunna vel helstu atriðin, það er að geta séð hvenær sé um hjartastopp að ræða, að muna að hringja á hjálp og byrja svo að hnoða. Þá sé mikilvægt að vita hvar stuðtækið er staðsett. Það bjargi lífi. Ekki er hins vegar nauðsynlegt að blása. 

En hver eru helstu einkenni hjartastopps?

„Hjartastopp getur auðvitað gerst í kjölfarið á öðrum hlutum. Ef þú ert eitthvað veikur eða færð ofnæmiskast þá getur það leitt af sér að þú farir úr því yfir í hjartastopp,“ segir Reynir. 

„En þetta klassíska hjá ungu fólki er að þú líður út af og svo svararðu ekki. Þú hristir viðkomandi og hann svarar ekki. Þá kíkirðu og athugar hvort hann andar, opnar öndunarveginn. Það getur að vísu verið smá öndun sem er afbrigðileg, en aðalmálið er að hann svarar ekki. Ef þú nærð ekki sambandi, þá verðurðu að byrja endurlífgun,“ segir Reynir.

Hann segir að fólk eigi ekki að leita að púls, heldur byrja frekar að hnoða og hringja á hjálp.

Christian Eriksen borinn af velli.
Christian Eriksen borinn af velli. AFP
mbl.is