Von á svölu veðri í vikunni

Veður verður svipað næstu daga og verið hefur.
Veður verður svipað næstu daga og verið hefur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný vika hefst á norðlægum áttum og svölu veðri. Spáð er lítils háttar slydduéli eða skúrum norðanlands, en yfirleitt verður þurrt á Vesturlandi. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að austan- og norðaustanátt verði á morgun, 5 til 13 metrar á sekúndu, en allt að 18 metrar á sekúndu við suðausturströndina. Skýjað verður með köflum og yfirleitt þurrt en rigning af og til sunnanlands. Hiti frá 3 stigum norðaustanlands upp í 11 stig suðvestan til. 

Vikuhorfur eru svipaðar, svalt í veðri norðan- og austanlands næstu daga, dálítil úrkoma af og til en mildara sunnanlands. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Austan og norðaustan 5-13, en 13-18 með suðausturströndinni síðdegis. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en rigning af og til um landið suðaustanvert. Hiti 3 til 11 stig, hlýjast á Suðvesturlandi.

Á miðvikudag:
Norðan 5-13, hvassast með austurströndinni. Dálítil rigning austanlands, úrkomulítið um landið norðanvert, en þurrt sunnan heiða. Hiti frá 1 stigi í innsveitum fyrir norðan, upp í 12 stig syðst.

Á fimmtudag (lýðveldisdaginn):
Breytileg átt 3-8. Skýjað að mestu á landinu og dálitlar skúrir á víð og dreif. Hiti 3 til 9 stig, mildast sunnanlands.

Á föstudag:
Sunnan- og suðaustanátt með dálítilli rigingu, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 12 stig.

Á laugardag:
Austlæg átt og vætusamt, en þurrt norðaustan til á landinu. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Útlit fyrir austlæga átt og rigningu, einkum um austanvert landið. Hlýnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert