Anna Sigrún ráðin sem framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítalans

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. Ljósmynd/Landspítalinn

Anna Sigrún Baldursdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra Landspítala frá og með 1. júlí 2021. Þetta kemur fram á vef spítalans. 

Skrifstofa forstjóra Landspítala hefur miðlæga yfirsýn yfir starfsemi, rekstur og verkefni spítalans. Undir skrifstofuna heyrir meðal annars samskiptadeild spítalans, lögfræðideild, deild innri þjónustu og Hringbrautarverkefnið. Framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra situr í framkvæmdastjórn Landspítala. 

Anna Sigrún fæddist árið 1970. Hún lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007. Hún hefur einnig stundað nám í siðfræði heilbrigðsþjónustu við Háskólann í Stokkhólmi og opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, segir í tilkynningunni. 

Anna Sigrún hefur verið aðstoðarmaður forstjóra Landspítala frá 2013. Hún var aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra 2009-2011 og í kjölfar sameiningar félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis aðstoðarmaður velferðarráðherra 2011-2013.

Áður starfaði Anna Sigrún meðal annars við fjármálaráðgjöf á Landspítala, rekstur sjálfstæðs fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu og hjúkrun á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi auk hjúkrunarstarfa á Landspítala og St. Franciskussjúkrahúsinu í Stykkishólmi.

mbl.is