Bæjarstjóri hefði ekki viljað gera neitt öðruvísi

Sif Huld Albertsdóttir tilkynnti í gær að hún væri hætt …
Sif Huld Albertsdóttir tilkynnti í gær að hún væri hætt sem bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar. Ljósmynd/Samsett

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að ekki hefði verið hægt að standa öðruvísi að því máli er sneri að Sif Huld Albertsdóttur bæjarfulltrúa sem sagði af sér í gær.

Þrátt fyrir það hefur Ísafjarðabær beðist afsökunar á því hve lengi það tók að taka kvörtun Sifjar um einelti til rannsóknar.

Sif Huld greindi frá því í yfirlýsingu í gær að hún hafi orðið fyrir einelti af hálfu embættismanns hjá Ísafjarðarbæ og að vegna þess hvernig bærinn tók á málinu geti hún ekki séð fyrir sér að vinna innan stjórnsýslu bæjarins og í þágu íbúa. Hún hefur því sagt af sér sem bæjarfulltrúi upp og hefur lagt fram bótakröfu á hendur Ísafjarðarbæ.

„Þetta kom alveg flatt upp á mig, já,“ segir Birgir inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun Sifjar.

Ekki lögð í einelti sem bæjarfulltrúi

Birgir segir að Sif hafi í raun ekki verið lögð í einelti sem bæjarfulltrúi, heldur sem framkvæmdastjóri byggðasamlags um málefni fatlaðra. Meintur gerandi er starfsmaður Ísafjarðarbæjar. 

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. mbl.is

Kvörtun í málinu barst fyrst í desember í fyrra að sögn Birgis. Þá hafi verið ákveðið sameiginlega af bæjarstjórninni og stjórn byggðasamlagsins að utanaðkomandi aðili yrði fenginn til þess að rannsaka málið. Í kjölfarið var svo ráðgjafafyrirtækið Attentus fengið til aðstoðar þannig gætt yrði að hlutleysi og málið yrði faglega unnið.

„Niðurstaðan kom síðan úr þessari vinnu í lok mars og hún var kynnt öllum hluteigandi aðilum. Þar er lagt upp með ákveðið úrbótaferli sem var farið strax í. Svona mál eru bara erfið og viðkvæm en það var reynt að vinna þetta eins faglega og kostur er. Og þegar ég lít til baka er ekki hægt að segja að ég hafi viljað að þetta yrði gert einhvern veginn öðruvísi,“ segir Birgir.

Sif var beðin afsökunar

Birgir vill ítreka, í ljósi gagnrýni sem kom fram í yfirlýsingu Sifjar í gær, að hún hafi vissulega verið beðin afsökunar á því að ekki hafi verið tekið á málinu fyrr. Það segir Birgir að sé áfellisdómur yfir Ísafjarðarbæ, sem hefur beðist afsökunar, þótt seint sé. Það sagði hann í svari sínu við fyrirspurn bb.is um málið.

„...Það er leitt að Sif Huld skuli  ekki sjá sér fært að sitja áfram sem bæjarfulltrúi, en hún hefur verið beðin afsökunar af hálfu Ísafjarðarbæjar og sjálfsagt að endurtaka þá afsökun,“ segir Birgir í svari sínu.

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður kom fram að meintur gerandi væri starfsmaður byggðasamlagsum málefni fatlaðra en það er ekki rétt. Starfsmaðurinn er starfsmaður Ísafjarðarbæjar.

mbl.is