Covid-tölur uppfærðar sjaldnar

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegna góðs árangurs í baráttunni við kórónuveiruna hafa almannavarnir ákveðið að uppfæra tölulegu síðuna á Covid.is sjaldnar en verið hefur, eða á mánudögum og fimmtudögum.

Síðan verður þó uppfærð á föstudegi í þessari viku vegna 17. júní sem er á fimmtudaginn.

„Í dag eru 46,9% íbúa Íslands (16 ára og eldri) bólusett og fleiri bætast við í þessari viku þegar enn fleiri verða bólusettir. Í dag fórum við einnig á „gráan“ í litakerfinu inni á Covid.is,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Frá 1. júlí verða tölurnar uppfærðar einu sinni í viku eða á fimmtudögum.  Ekki verða gefnar bráðabirgðatölur eins og gert hefur verið um helgar þegar vefurinn hefur ekki verið uppfærður. 

Ein undantekning verður þó á þessu nýja verklagi, því ef kórónuveirusmit greinist utan sóttkvíar verða þær upplýsingar sendar út, að því er segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir þessar breytingar verður haldið áfram að uppfæra bólusetningartölur á Covid.is.

Ekki verður haldinn upplýsingafundur á morgun eða næstu vikur, nema þörf verði á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert