ÍFF „aðför að réttindum vinnandi fólks“

Drífa Snædal, forstei ASÍ, á formannafundi í dag.
Drífa Snædal, forstei ASÍ, á formannafundi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Drífa Snædal, forseti ASÍ, gerði skúffustéttarfélög að umtalsefni í ávarpi sínu á formannafundi ASÍ fyrr í dag og fullyrti að ÍFF – hið íslenska flugstéttarfélag – væri alvarleg aðför að réttindum alls vinnandi fólks. 

Hún segir víða vegið að réttindum launafólks til að semja um kjör á sínum forsendum og tók sérstaklega fyrir skúffustéttarfélög. 

Þykist vera stéttarfélag

„Kópur heitir félag sem þykist vera stéttarfélag. Það hefur enga kjarasamninga gert og er ekki stofnað af vinnandi stéttum. Félagið herjar á fólk sem er ekki alið upp við hina sterku íslensku verkalýðshreyfingu líkt og dagblað í leit að áskrifendum. En félagið bregst í stórum atriðum í vörn fyrir vinnandi fólk.

Þegar farið er inn á heimasíðuna lítur þetta frekar út fyrir að vera tryggingafélag en stéttarfélag og því dýpra sem grafið er í starfsemina þeim mun ljósara verður að þetta félag getur ekki boðið upp á þau dýrmætu réttindi og umgjörð sem hin hefðbundna hreyfing getur. Þar með er fólk sem skráir sig í það félag að verða af réttindum sem vinnandi fólk hefur barist fyrir áratugum saman,“ tók Drífa sem dæmi. 

Þá rakti Drífa sögu og tilkomu stéttarfélagsins ÍFF, en hún hefur áður kallað félagið skúffustéttarfélag og kallað eftir gögnum um samninga við flugfélagið Play.

Flugfreyjur komu ekki að samningum ÍFF

„Annað dæmi er ÍFF – hið íslenska flugstéttarfélag – sem er ekkert annað en alvarleg aðför að réttindum alls vinnandi fólks.

Í fundargerðum félagsins kemur fram að eftir að félagið, sem þá var félag flugmanna hjá WOW air, var nánast gjaldþrota eftir fall flugfélagsins var ákveðið að breyta samþykktum þannig að hægt væri að semja líka fyrir flugfreyjur og -þjóna.

Þetta var gert til að bjarga stéttarfélaginu frá gjaldþroti og freista þess að semja fyrir alla áhöfnina við endurreist flugfélag sem þá gekk undir heitinu WAB – eða we are back.

Engin flugfreyja eða flugþjónn kom að þessari ákvörðun eins og fundargerðin staðfestir. Undirritaðir eru samningar áður en flugfreyjur og -þjónar gengu í félagið og „We Are Back“ byrjar að kynna sig fyrir fjárfestum sem „fyrsta íslenska lággjaldaflugfélagið“ og að launakostnaður flugstétta verði á bilinu 20-40% lægri en var hjá WOW air,“ rakti Drífa. 

Síðar hafi WAB breyst í Play sem tók yfir „þessa ömurlegu kjarasamninga og stærir sig af þeim“.

Sláandi kynjavinkill

Drífa segir ASÍ lengi hafa reynt að fá afrit af kjarasamningum ÍFF án árangurs. ASÍ fékk afrit af þeim eftir opinbert ákall þess efnis, sem Birgir Jónsson, forstjóri Play, tók undir. 

„Flugmennirnir seldu flugfreyjur og flugþjóna í örvæntingarfullri tilraun til að skapa sér áframhaldandi atvinnu. Kynjavinkilinn er sláandi. Nú á að sækja aukið fjármagn og ég ætla rétt að vona að enginn lífeyrissjóður taki þátt í útboði nema Play gangi til kjarasamninga á félagslegum grunni við raunverulegt stéttarfélag,“ sagði Drífa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina