Miklabrautin „ógn við lífsgæði og heilsu fólks“

„Við erum á tímamótum í samgöngumálum og skipulagsmálum,“ sagði Dagur …
„Við erum á tímamótum í samgöngumálum og skipulagsmálum,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun sem bar yfirskriftina „Reykjavík á tímamótum: Miklabraut og Sæbraut í stokk.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklabraut og Sæbraut í stokk eru stórir burðarásar í samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga sem ekki hafa fengið þá athygli og umræðu sem eðlilegt væri. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun sem bar yfirskriftina „Reykjavík á tímamótum: Miklabraut og Sæbraut í stokk“.

„Þetta er að breytast og þessi fundur er haldinn í tilefni af því að við höfum fengið landslið arkitekta, verkfræðinga og skipulagsfræðinga til að spreyta sig á því verðuga verkefni að draga fram möguleikana á skipulagi og útfærslu með tilkomu Sæbrautarstokks og Miklubrautarstokks vestur. Með þessu erum við að stíga inn í nýja tíma á þessum svæðum,“ sagði Dagur. 

Á fundinum kynntu fimm hópar arkitekta, landslagsarkitekta, hönnuða, og verkfræðinga tillögur sínar um hönnun stokkanna og byggðar á hvoru svæði fyrir sig. Að fundinum loknum var opnuð heimasíða þar sem nálgast má hugmyndirnar. 

Stokkaútfærslan er í frumhönnun og sagði Dagur að ljóst væri að framkvæmdin við Sæbrautarstokk færi ekki í gang í ár. „En eftir frumhönnun fer af stað umhverfismat og samhliða skipulagsferli og það er í raun innlegg í skipulagsferli sem við erum að fá hér í dag.“ 

Manneskjulegri borgarmynd

Dagur sagði borgina standa á tímamótum í samgöngu- og skipulagsmálum og sagði hann lífsgæðabyltingu yfirvofandi. „Bæði fyrir fólk sem býr og starfar í hverfunum sem eru þarna sitt hvoru megin núna, og ekki síður þá sem munu flytja inn á svæðið því bæði svæðin gefa kost á uppbyggingarmöguleikum, þéttri, áhugaverðri en síðast en ekki síst manneskjulegri borgarmynd.“

Í því samhengi nefndi borgarstjóri að jafnvel þeir sem skipulögðu Miklubraut settu ekki fram þá sýn að bílaeign yrði svo almenn og umferðin svo hröð. „Þessi atriði samanlagt hafa leitt til þess að Miklabrautin er orðin ógn við lífsgæði og heilsu fólks á stórum svæðum í borginni, sérstaklega í Hlíðunum,“ sagði Dagur. 

Líkt og fyrr segir hefur heimasíða verið opnuð þar sem nálgast má hugmyndir hópanna. Hér má sjá tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við vegstokk á Sæbraut við Vogahverfi og hér má sjá tillögur um vegstokk á Miklubraut við Snorrabraut.

mbl.is

Bloggað um fréttina