„Næsta vika verður mjög stór“

Um 9.500 manns voru bólusettir með bóluefninu Pfizer í Laugardalshöll …
Um 9.500 manns voru bólusettir með bóluefninu Pfizer í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Von er á stórum sendingum af bóluefnunum gegn Covid-19 frá Janssen, Pfizer og AstraZeneca til landsins í næstu viku, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá verður nóg að gera bæði í fyrstu bólusetningum og endurbólusetningum.

„Næsta vika verður mjög stór. Við erum að skipuleggja þrjá daga í næstu viku, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag, og reiknum með að það verði allt stórir dagar. Við ætlum að byrja á Janssen á þriðjudaginn, á miðvikudeginum tökum við Pfizer og svo erum við að vonast til að geta haft stóran AstraZeneca-dag á fimmtudag ef stóri skammturinn af efninu verður kominn til landsins,“ segir Ragnheiður.

„Það eru svo margir sem eiga eftir að fá bólusetningu númer tvö af AstraZeneca þannig að það fer allt í endurbólusetningar. Svo verða allt nýir í Janssen á þriðjudeginum og svo á miðvikudeginum fer rúmlega helmingur af Pfizer-skömmtunum í fyrstu bólusetningu og hinn helmingurinn í endurbólusetningu.“

Bólusett með Moderna á morgun

Á morgun verður bólusett með Moderna en samkvæmt Ragnheiði er lítið til af efninu og því munu flestir skammtarnir fara í endurbólusetningar.

„Við eigum ekki mikið af Moderna. Ég held það séu um fimm til sex þúsund skammtar sem við eigum af því og það er mestmegnis að fara í endurbólusetningu. Það eru einhverjir 1.500 skammtar sem við eigum fyrir nýja, sem við erum búin að boða í bólusetningu. Þannig að það verður bara lítill dagur á morgun.“

Um 9.500 manns voru bólusettir með bóluefninu Pfizer í Laugardalshöll í dag og urðu engir aukaskammtar eftir, að sögn Ragnheiðar.

„Bólusetningarnar gengu bara alveg glimrandi vel í dag og það var fínasta mæting. Það kom ekkert óvænt upp á og við vorum búin alveg ótrúlega snemma,“ segir hún.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert