Ógnaði lögreglu

Klukkan 17 í gær barst lögreglu tilkynning um mann sem gekk berserksgang í sameign fjölbýlishúss. Maðurinn var í annarlegu ástandi og fór ekki eftir fyrirmælum lögreglumanna um að láta af hegðun sinni og hafði upp ógnandi tilburði við lögreglumenn. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. 

Skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi sem var að angra viðskiptavini á veitingastað. Þegar lögreglumenn komu á vettvang, til að ræða við manninn og vísa honum í burtu, neitaði hann að gefa upp persónuupplýsingar. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Eftir að maðurinn gaf upp persónuupplýsingar og lögreglumenn höfðu rætt við hann var hann frjáls ferða sinna. 

Um klukkan 17:40 var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi ganga eftir miðri götu í veg fyrir umferð. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang. 

Þrjár tilkynningar bárust lögreglu í gærkvöldi og nótt vegna samkvæmishávaða í heimahúsi. Um klukkan 2:40 var síðan kvartað undan hávaða utandyra vegna knattspyrnuiðkunar. 

Skömmu fyrir klukkan eitt ók leigubílstjóri inn á bílastæði lögreglu og óskaði eftir aðstoð vegna farþega sem voru með hótanir í hans garð. Í nótt óskaði öryggisvörður síðan eftir aðstoð lögreglu við að vísa ölvuðum aðila út úr bílastæðahúsi í miðbænum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert