Ólögmætt að svipta hælisleitendur þjónustu

Kærunefnd útlendingamála sló á puttana á Útlendingastofnun og taldi ólögmætt …
Kærunefnd útlendingamála sló á puttana á Útlendingastofnun og taldi ólögmætt að svipta hælisleitendur þjónustu, neiti þeir að gangast undir PCR-próf. mbl.is/Hari

Kærunefnd útlendingamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að fella niður þjónustu palestínsks hælisleitanda, sem meðal annars felur í sér veitingu húsnæðis og fæðis.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að ákvörðunin hafi ekki átt sér viðhlítandi lagastoð.

Úrskurðurinn hefur fordæmisgildi fyrir þá sem eru í sömu stöðu, sem eru nokkrir, að sögn Magnúsar D. Norðdahl, lögmanns hælisleitandans. 

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður hælisleitandans.
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður hælisleitandans. Ljósmynd/Aðsend

„Ómannúðlegt að bera sig með þessum hætti“

„Þegar Útlendingastofnun byrjaði á þessu, þá sögðum við það ítrekað við stofnunina að þetta væri ómannúðlegt og ólöglegt að bera sig að með þessum hætti. Nú hefur það verið staðfest að framferði stofnunarinnar var ólögmætt,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

„Við auðvitað fögnum því að kærunefndin skuli taka þarna undir sjónarmið okkar og fella niður ákvörðun sem aldrei átti að taka,“ segir hann.

Hælisleitandinn hafði neitað að gangast undir PCR-próf fyrir kórónuveirusmiti, vegna fyrirhugaðs flutnings til Grikklands en brottvísunin var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála í nóvember 2020.

Magnús segir að ákveðins misskilnings gæti í þessum málum. Hælisleitendurnir hafi ekki neitað að fara í PCR-próf þar sem þeir væru með einkenni eða þvíumlíkt. Neyð þeirra sé hins vegar slík að þeir séu síður tilbúnir að hjálpa til við eigin brottvísun, með því að gangast undir prófið.

Hann telur alvarlegt að opinber stofnun skuli fara fram með þessum hætti, þar sem hælisleitendurnir höfðu í engin hús að venda né átt kost á þeirri þjónustu sem þeir þörfnuðust.

Ákvörðun sem snýr að réttindum þarf að byggjast á lagaheimild

Að mati nefndarinnar er ekki skýrt samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga, reglugerðar um útlendinga og framkvæmd Útlendingastofnunar, hvenær og við hvaða skilyrði þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd fellur niður. 

„Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að stjórnvöld geta aðeins tekið íþyngjandi ákvörðun um skerðingu réttinda borgaranna hafi þau til þess skýra og ótvíræða lagaheimild. Með vísan til framangreindra sjónarmiða kæranda og orðalags 33. og 35. gr. laga um útlendinga og 23. gr. reglugerðar um útlendinga verður ekki séð að Útlendingastofnun hafi heimild í lögum sem skjóti stoðum undir hina kærðu ákvörðun,“ segir í úrskurði kærunefndarinnar.

mbl.is