Telja sig hafa fundið mannabein

Stefán Vagn yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra segir beinin …
Stefán Vagn yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra segir beinin hafa verið send til skoðunar hjá kennslanefnd ríkislögreglustjóra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Bein sem lögreglan telur vera mannabein fundust í fjöru á Skaga í Húnavatnssýslu um eftirmiðdaginn í gær. Ábúandi á svæðinu tilkynnti um fundinn og voru björgunarsveitir sendar á staðinn um fjögurleytið í gær en leitin stóð yfir fram undir miðnætti.

Þetta staðfestir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is en Rúv greindi fyrst frá.

Hann telur að um sé að ræða handlegg en beinin hafa þegar verið send til kennslanefndar ríkislögreglustjóra til rannsóknar.

Ýmislegt fleira var að finna í fjörunni að sögn Stefáns: „Þessu var safnað saman og sent með. En það er ekkert nema þessi partur sem fannst fyrst sem verið er að skoða.“

mbl.is