47 sjálfsvíg árið 2020

Síðastliðinn áratug (2011-2020) hafa að meðaltali 39 sjálfsvíg orðið árlega …
Síðastliðinn áratug (2011-2020) hafa að meðaltali 39 sjálfsvíg orðið árlega hér á landi en þegar litið er til einstakra ára hefur fjöldinn verið á bilinu 27 til 49 að sögn landlæknis. mbl.is/RAX

47 manns sviptu sig lífi hér á landi árið 2020, 15 konur og 32 karlar. Þetta segir í frétt á vef Landlæknis. Sé litið til ársins á undan þá er ekki breyting á fjölda sjálfsvíga karla en sjálfsvíg kvenna eru fleiri árið 2020 en 2019.

Þá hefur tíðni sjálfsvíga kvenna á hverja 100.000 íbúa verið á bilinu 1,2 til 8,7 síðastliðinn áratug (2011-2020) en var 8,4 árið 2020.

17 sjálfsvíg karla voru á hverja 100.000 íbúa árið 2020 en hafa verið á bilinu 13,7 til 21,6 síðastliðinn áratug. Þá er meðaltal fyrir áratuginn í heild 11,6 en 12,8 fyrir árið 2020.

Síðastliðinn áratug hafa að meðaltali 39 sjálfsvíg orðið árlega hér á landi en þegar litið er til einstakra ára hefur fjöldinn verið á bilinu 27 til 49 að sögn landlæknis. Þá segir einnig að þegar á heildina er litið megi ekki sjá teljandi breytingar á sjálfsvígstíðni á Íslandi síðastliðinn áratug, að því er landlæknisembættið greinir frá. 

Aðgerðaáætlun í von um fækkun sjálfsvíga

Frá því í apríl 2018 hefur verið unnið að aðgerðaáætlun á vegum Landlæknis sem snýr að margvíslegum þáttum er snúa að sjálfsvígum og leiðum til að koma í veg fyrir þau. Þar má nefna aukna eftirfylgd í kjölfar sjálfsvíga, skert aðgengi hættulegra efna og aðstæðna, bætta þjónustu við sérstaka áhættuhópa og eflingu geðræktar í skólum.

Landlæknisembættið bendir á að ef fólk hefur áhyggjur af sinni líðan eða annarra sé hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, á netspjalli 1717.is eða í síma Píetasamtakanna 552-2218. Úrræðin eru opin allan sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert