Aukin vernd fyrir þolendur mansals

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kynntar hafa verið nýjar aðgerðir gegn mansali á Íslandi. Aðgerðirnar byggjast á frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á ákvæði almennra hegningarlaga um mansal, sem hefur nú verið samþykkt á Alþingi. 

Í lögunum er vernd þolenda mansals aukin, ekki síst kvenna og barna sem seld eru í vændi eða misnotuð kynferðislega með öðrum hætti, að því er fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Einnig er skerpt á vernd einstaklinga sem sætt hafa vinnumansali og annarri hagnýtingu fólks í veikri stöðu með nauðungarvinnu, nauðungarþjónustu, þrælkun eða ánauð. 

Með samþykki frumvarpsins hefur ákvæði almennra hegningarlaga um mansal verið uppfært í samræmi við lagaþróun á Norðurlöndum og alþjóðlega sáttmála. 

Upplýsingum um mansal hefur verið bætt á vegfátt Neyðarlínunnar gegn ofbeldi. Þar geta þolendur leitað sérhæfðrar hjálpar og ráðgjafar og aðrir aflað sér upplýsinga um einkenni mansals og leitað úrræða ef grunur er um að einstaklingur sé þolandi mansals. Hægt er að fá samband við neyðarvörð sem virkjar viðbragð þeirra sem veita þolendum mansals aðstoð og leiðbeinir áfram til þeirra úrræða sem standa þolendum og öðrum til boða þegar mansal er annars vegar. 

Ráðgjafarteymi lögreglu um mansal sett á stofn 

Einnig er unnið að stofnun ráðgjafarteymis innan lögreglunnar undir forystu embættis ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að vera öllum lögregluembættum landsins til ráðgjafar þegar kemur að mansali, bæði hvað varðar greiningu mála sem og rannsókn þeirra. Hópurinn hefur einnig það markmið að miðla reynslu og þekkingu til lögreglumanna og sækjenda á landinu öllu og halda utan um tölfræði og stöðuna um mansal í íslensku réttarvörslukerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert