Dauðbrá að sjá hraunið æða niður hlíðina

Hrauntungan í Nátthaga hefur skriðið hratt og langt fram eftir að taumurinn úr Geldingadölum fann sér leið yfir gönguleiðina þangað niður.

Gísli Reynisson, eigandi Aflafrétta og rútubílstjóri, var staddur ásamt dóttur sinni, stjúpsyni og bandarískum vini á svæðinu á mánudaginn þegar hrauntungan kom einmitt æðandi niður hlíðina.

„Við vorum búin að vera að fylgjast með hraunjaðrinum lengra frá. Það var eins og það væri risajarðýta að ýta þessu niður. Mér bara dauðbrá,“ segir Gísli.

Síminn bráðnaði í hitanum

Hann segir þau hafa staðið við hraunið í rólegheitum en aðeins um tveimur mínútum síðar hafi það runnið glóandi yfir þennan sama stað og þau höfðu staðið á.

„Það er ekki hægt að lýsa því hvað það var mikill hiti þarna. Það var ofboðslega heitt,“ bætir hann við og segir bakhliðina á símanum sínum hafa bráðnað að hluta til.

Frá vinstri: Una Rós, Reynir Hörður, Don Barri og Gísli.
Frá vinstri: Una Rós, Reynir Hörður, Don Barri og Gísli. Ljósmynd/Gísli Reynisson

„Ótrúleg breyting“

Þetta var í annað sinn sem Gísli fór að sjá eldgosið. Síðast fór hann þangað í mars „í 20 stiga frosti og skítakulda“.

„Það hefur ótrúleg breyting orðið á þessu. Ég gat labbað alla leið að gosinu þá og allt í góðu en núna er það ekki séns,“ segir hann og ætlar sér að fara í þriðja sinn. Þá verður konan hans með í för. 

Dóttir hans, Una Rós, tók upp myndskeiðið sem fylgir fréttinni en það má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. „Það vildi svo heppilega til að Una var með símann í gangi og á upptöku og náði þessu,“ greinir Gísli frá en stjúpsonur hans, fótboltastrákurinn Reynir Hörður, var einnig í föruneytinu. Don Barri, kennari í jarðvísindum við háskóla í Los Angeles, fylgdist sömuleiðis með sjónarspilinu og ætlar að nýta sér ferðina að eldgosinu í kennslunni.

„Það var mjög spennandi að sjá þetta allt en mjög heitt. Þetta var miklu flottara en ég bjóst við,“ segir Una um upplifunina.

Hækkandi hraun

Í facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands kemur fram að hraunár ofan af fjallinu dæla áfram þunnfljótandi hraunbráð niður í dalinn í lokuðum rásum. Við það safnast hraunbráðin undir skorpuna í Nátthaga og tjakkar upp storknað hraunið. Skorpan brestur reglulega á jöðrunum og hraunspýjur leka fram.

Þetta ferli má sjá betur í meðfylgjandi GIF-mynd sem hópurinn vann upp úr vefmyndavél mbl.is. Myndirnar ná yfir 8 klukkustunda tímabil í nótt og í morgun og sést þar vel hvernig hraunið hækkar.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum frá því í morgun kemur fram að leið A upp að gosstöðvum er lokuð.  Fara þarf leið B sem er lengri og erfiðari og ekki fyrir óvana göngumenn. Fyrir óvana er hægt að ganga suður fyrir Borgarfjall og inn að Nátthaga og líta þar hraunið augum.mbl.is