Hröð fjölgun ferðamanna 

Frá höfninni á Húsavík.
Frá höfninni á Húsavík. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ferðamönnum í Eurovisionbænum Húsavík hefur fjölgað mjög og hefur það gerst hratt á undanförnum vikum og dögum.

„Við sjáum talsverða aukningu ferðafólks og það gerðist hratt. Núna bara á undanförnum tveimur vikum sjáum við talsvert meira af ferðafólki í bænum. Við erum ekki með mælingar í gangi núna en maður heyrir það og sér á ferðaþjónustuaðilum, bæði hvalaskoðunarfyrirtækjum og veitingastöðum, sem merkja mikla aukningu,“ segir Silja Jóhannesdóttir, forstöðumaður Húsavíkurstofu.

Silja segir að aðallega sé um erlenda ferðamenn að ræða en Íslendingar fari seinna af stað. Hún er bjartsýn á sumarið.

„Við vonumst til að halda áfram með innanlandsmarkaðinn í bland við að erlendum ferðamönnum fjölgi. Eftir erfitt ár í fyrra eru margir auðvitað ennþá að reyna að ná vopnum sínum. Ég hugsa að þetta sumar verði talsvert betra en í fyrra og við vonum að það nægi til að fólk geti allavega haldið áfram. Það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt fyrir bæinn að þessi þjónusta sem fylgir ferðaþjónustu sé til staðar fyrir íbúa,“ segir hún.

Sjóböðin á Húsavík.
Sjóböðin á Húsavík. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Ætla að opna Eurovisionsafn

Enginn vafi leiki á að Eurovisionævintýrið hafi ýtt undir komu ferðamanna til bæjarins. Ferðamenn spyrji mikið um staðina þar sem Eurovisionmyndin var tekin upp.

„Það er stefnt á að opna Eurovisionsafn, við erum búin að gera varanlegan rauðan dregil, við erum að fara að setja upp biðskýli, við ætlum að merkja höfnina og við munum markaðssetja okkur áfram sem Eurovisionbæ og auðvitað nýta tækifærið í hvert einasta skipti sem það er Eurovision til að minna á okkur.

Rachel McAdams og Will Ferrell slógu í gegn sem Íslendingar …
Rachel McAdams og Will Ferrell slógu í gegn sem Íslendingar frá Húsavík í myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.

Samkvæmt skýrslum að utan þar sem aðrir staðir hafa notið góðs af því að kvikmyndir hafi verið teknar upp hjá þeim þá er ekki spurning að við munum njóta góðs af þessu ef við spilum rétt úr spilunum,“ segir Silja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert