Icelandair sparar 20 tonn af plasti á ári

Sigurður Bogi Sævarsson

Eitt af þeim verkefnum sem Icelandair vinnur að þessa dagana er að draga úr áhrifum af starfsemi félagsins á umhverfið. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að draga úr notkun á litlum vatnsflöskum um borð flugvéla félagsins. Með þessu breytta verkferli áætlar félagið að það muni spara um 20 tonn af plasti á ári ef miðað er við plastnotkun á árinu 2019.

Þá kemur fram í tilkynningu að félagið hafði tekið þessa ákvörðun áður en Covid-19 faraldurinn skall á, en af sóttvarnarástæðum var beðið með framkvæmd hennar. Þar sem dregið var úr þjónustu á þessu tímabili var ákveðið að allir farþegar fengju vatnsflösku afhenda við brottför. Áður var farþegum á flugleiðum félagsins til og frá Norður Ameríku boðin vatnsflaska við brottför.

Á árinu 2019 voru 1,6 milljón vatnsflöskur afhentar á þessum flugleiðum. Þrátt fyrir að þessari þjónustu verði hætt segist flugfélagið þó ætla að halda áfram að leggja ríka áherslu á góða þjónustu um borð og vatn verði áfram í boði fyrir farþega endurgjaldslaust.

Þá segir enn fremur í tilkynningu að þetta sé einungis einn liður í fjölmörgu verkefnum sem Icelandair vinnur að á sviði umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar og að félagið hafi sett sér metnaðarfull markmið til framtíðar á þessu sviði. Félagið byggir stefnu sína í samfélagsábyrgð á fjórum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is