Lágvaxtaumhverfi hafi gjörbreytt húsnæðismarkaðnum

Drífa Snædal, forseti ASÍ, hef­ur und­ir merkj­um átaks­ins „Sam­tal við …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, hef­ur und­ir merkj­um átaks­ins „Sam­tal við flokk­ana“ rætt við leiðtoga stjórn­mála­flokk­anna og ídag ræddi hún við Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Skjáskot/Youtube

Mesta kjarabótin í húsnæðismálum hér á landi að mati Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, er stöðugleiki í efnahagsmálum og lægri vextir. Þetta er meðal þess sem fram kom í spjalli hans við Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands, sem fram fór í beinu streymi í morgun. 

„Við höfum ekki alltaf verið sammála, ég og þú, til dæmis um það grundvallaratriði sem við settum fram 1. maí: „Það er nóg til,“ og erum ennþá að keyra á, þú ert ekki alveg sammála því sem fjármálaráðherra að það sé nóg til,“ sagði Drífa en þau voru þó sammála um að húsnæðismálin eru algjör grundvallarmálaflokkur í samfélaginu. 

„Lágvaxtaumhverfi, eins og það sem við höfum náð að byggja upp undanfarin ár þar sem vextir hafa verið þeir lægstu í sögunni á Íslandi frá lýðveldisstofnun hefur gjörbreytt húsnæðismarkaðnum þannig að fólk hefur getað endurfjármagnað og staðið betur undir lánskjörum með þeim launum sem það hefur,“ sagði Bjarni.  

Hann nefndi einnig að athyglin hefði beinst að því hvort stjórnvöld geti tryggt jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Í því samhengi segir Bjarni að meðal annars hafi verið horft til sveitarfélaganna sem sér um útdeilingu lóða og að hægt sé að mæta framboð og eftirspurn. „Það sem hefur slegið mig mest í þessu er hversu slöpp við erum að tryggja nýjustu upplýsingar um stöðu mála,“ sagði Bjarni og þar vill hann sjá umbætur.  

Stöðugleiki „mantra Sjálfstæðisflokksins“

Drífa ræddi nánar við Bjarna um tíðræddan stöðugleika sem hún kallaði „möntru Sjálfstæðisflokksins,“ og spurði hún um stöðugleika gagnvart fólki sem á erfitt uppdráttar, er á lægstu laununum og á erfitt með að framfæra sér. „Orðið stöðugleiki er ekki endilega eftirsóknarvert í huga allra,“ sagði Drífa og benti á að í stefnu Sjálfstæðisflokksins er lítið fjallað um launafólk og gaf Bjarna tækifæri til að ávarpa launafólk. 

„Óstöðugleiki kemur verst niður á þeim sem eru viðkvæmastir fyrir, þeir sem eru með há skuldahlutföll, þeir sem að hafa ekki mikið úr að spila í lok mánaðar, þegar það fara af stað vaxtahækkanir og verðbólguskeið er þetta fólkið sem aldan brotnar fyrst á,“ sagði Bjarni og bætti við að enginn væri að tala um að halda fólki stöðugt í viðkvæmri stöðu.       

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert