Landspítalinn sammála Landlækni um Landakot

Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Þrettán manns …
Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Þrettán manns létust hið minnsta vegna þess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landspítalinn hefur farið yfir úttekt embættis landlæknis á hópsmiti kórónuveiru sem kom upp á Landakotsspítala í október á síðasta ári og segist Landspítalinn vera í meginefnum sammála niðurstöðu embættisins. 

Í yfirlýsingu spítalans má merkja að stjórnendum spítalans finnist eins og erfitt hefði verið að koma í veg fyrir þann harmleik sem átti sér stað á spítalanum, enda hafi landsins allra hæfasta fólk verið að gera sitt allra besta við fordæmalausar og erfiðar aðstæður. 

Þar segir m.a., að því miður hafi ítrekað skapast fordæmalausar aðstæður í heimsfaraldri Covid-19 á Landspítala, sérstaklega á fyrsta ári hans.

„Við Íslendingar erum þó ekki einstök hvað þetta varðar, því heimsbyggðin hefur öll verið að kljást við sama vandamál. Þar sem aðstæður eru góðar hvað snertir húsnæði og mannauð hefur tekist betur að fást við farsóttina og fyrirsjáanlegar hópsýkingar. Þar sem aðstæður eru síðri hefur gengið verr. Af því má mikinn og þungan lærdóm draga.“

Allt hafi verið reynt til þess að koma í veg fyrir stórslys

Landspítalinn ítrekar í yfirlýsingu sinni að í kjölfar bráðabirgðaúttektar sem spítalinn gerði sjálfur í kjölfar hópsmitsins hafi komið fram alls konar ábendingar um það sem betur mætti fara á Landakoti. Þar hefur nú verið ráðist í ýmsar endurbætur, á húsnæði sem hentar einkar illa fyrir sjúkrahússtarfsemi enda frekar notað undir endurhæfingarstarfsemi. 

„Má þar nefna meðal annars fækkun fjölbýla og fjölgun sérbýla auk þess sem loftræstikerfi hefur komið fyrir. Sýkingavarnir verða styrktar, ásamt starfsmannaheilsuvernd, unnið er að stöðlun húsnæðis og viðhalds innviða eftir megni. Þessu til viðbótar er nú unnið að eflingu mönnunar í sýkingavörnum, menntadeild og starfsmannaheilsuvernd í áföngum á Landspítala í heild. Unnið er að umbótum á rafrænum stuðningi og samhliða að útboði á nýjum kerfum fyrir gæðahandbók, fræðslu- og hæfnistjórnunarkerfi, þar sem meðal annars er hugað að möguleika á að efni verði aðgengilegt á fleiri tungumálum en íslensku,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Landspítalans. 

Þar að auki segir að samtal milli Landspítalans og embættis landlæknis sé gott. Ábendingar og aðfinnslur landlæknis séu réttar og að samstarf um úrbætur sé gott og farsælt. 

Yfirlýsingin í heild sinni:

Landspítali hefur  yfirfarið niðurstöður rannsóknar embættis landlæknis á hópsýkingu Covid-19 á Landakoti. Landspítali harmar þann atburð og afleiðingar hans. Skýrsla embættisins er ítarleg og það er mat Landspítala að niðurstöður embættisins séu í megindráttum samhljóma niðurstöðu innri athugunar spítalans, en hún var gerð strax í kjölfar atburðarins og kynnt opinberlega í nóvember 2020.

Báðar skýrslurnar eru unnar í lærdóms- og umbótaskyni og sem slíkar mjög gagnlegar fyrir stjórnendur og starfsfólk Landspítala. Embættið gerir sambærilegar tillögur og þegar höfðu verið settar fram af Landspítala. Mörgum þeirra hefur þegar verið hrint í framkvæmd, en aðrar sem kalla á umfangsmiklar breytingar eða fjármagn hafa verið settar í farveg eftir því sem unnt er. Í báðum skýrslunum er horft í baksýnisspegil (e. hindsight-bias) og þannig er unnt að koma auga á þætti sem ekki voru þeim ljósir sem stóðu í auga stormsins og þurftu að taka  ákvarðanir til að  ráða niðurlögum faraldursins.

Á meðan faraldur geisaði í samfélaginu komu endurtekið upp minni hópsýkingar á bráðadeildum spítalans, en öflugar sýkingavarnir, góð skipulagning og snör viðbrögð starfsfólks dugðu þar til að ráða niðurlögum yfirvofandi hópsmita. Því viðbragði stýrðu sömu aðilar og komu að atburðunum á Landakoti. Því miður náðist ekki jafn snöggt að stemma stigu við þeirri sýkingu sem upp kom þar. Aðstæður og starfsemi á Landakoti er enda ólík þeirri sem fram fer á bráðadeildum, en á Landakoti fer fram endurhæfingarstarfsemi í húsnæði sem ekki uppfyllir ítrustu kröfur um aðbúnað á sjúkrahúsi. Þá er eðli endurhæfingarstarfsemi  með þeim hætti að ekki eru sömu bjargir til að bregðast við faraldri – meðal annars varðandi hólfaskiptingar – og á hefðbundnu bráðasjúkrahúsi og ekki var unnt að flytja sjúklinga annað nema að mjög takmörkuðu leyti.

Í kjölfar ábendinga í innri athugun Landspítala hafa á undanförnum mánuðum farið fram umfangsmiklar endurbætur á húsnæði Landakots. Má þar nefna meðal annars fækkun fjölbýla og fjölgun sérbýla auk þess sem loftræstikerfi hefur komið fyrir. Sýkingavarnir verða styrktar, ásamt starfsmannaheilsuvernd, unnið er að stöðlun húsnæðis og viðhalds innviða eftir megni. Þessu til viðbótar er nú unnið að eflingu mönnunar í sýkingavörnum, menntadeild og starfsmannaheilsuvernd í áföngum á Landspítala í heild. Unnið er að umbótum á rafrænum stuðningi og samhliða að útboði á nýjum kerfum fyrir gæðahandbók, fræðslu- og hæfnistjórnunarkerfi, þar sem meðal annars er hugað að möguleika á að efni verði aðgengilegt á fleiri tungumálum en íslensku.

Landspítali vill ítreka að starfsfólk og stjórnendur spítalans vinna náið með embætti landlæknis og samskipti þar á milli eru tíð. Landspítali átti samstarf við embættið í þessu máli eins og öðrum mikilvægum málum. Ábendingarnar í skýrslunni eru  í öllum aðalatriðum réttmætar, enda mikill samhljómur með niðurstöðum þessarar skýrslu og skýrslu Landspítala, sem var gerð opinber í nóvember 2020. Þær ábendingar sem skýrsla embættis landlæknis kemur með til viðbótar og lúta að stjórnun og skipulagi á farsóttartímum verða sérstaklega skoðaðar.

Því miður hafa ítrekað skapast fordæmalausar aðstæður í heimsfaraldri Covid-19 á Landspítala, sérstaklega á fyrsta ári hans. Við Íslendingar erum þó ekki einstök hvað þetta varðar, því heimsbyggðin hefur öll verið að kljást við sama vandamál. Þar sem aðstæður eru góðar hvað snertir húsnæði og mannauð hefur tekist betur að fást við farsóttina og fyrirsjáanlegar hópsýkingar. Þar sem aðstæður eru síðri hefur gengið verr. Af því má mikinn og þungan lærdóm draga.

Við hópsýkinguna á Landakoti fékkst flest af best menntaða, reyndasta og færasta starfsfólki Landspítala og það á sama tíma og viðbragði vegna farsóttarinnar var stýrt á öllum starfstöðvum spítalans. Við slíkar aðstæður er nánast óhjákvæmilegt annað en að tímabundið komi upp erfið staða þegar viðkvæm starfsemi er endurskipulögð með hraði. Starfsfólk starfaði af heilindum og sem einn maður að nauðsynlegu viðbragði og úrbótum við ótrúlega erfiðar aðstæður og á mikið hrós skilið fyrir vikið. Þeim til órofins stuðnings var sérhæft starfsfólk farsóttarnefndar og sýkingavarna sem störfuðu í daglegu samráði við viðbragðsstjórn spítalans. Einnig kom fólk frá öðrum deildum og úr bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins og veitti stuðning og mikilvæga líflínu þegar stór hluti starfsfólks fór í sóttkví og þurfti að glíma við veikindi og sýkingar. Þessu fólki ber öllu að þakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert