SÁÁ ábyrg vegna sturtuslyss sjúklings

Sjúkrahúsið Vogur.
Sjúkrahúsið Vogur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi í dag skaðabótaskyldu úr ábyrgðartryggingu SÁÁ gagnvart konu sem rann á sleipu gólfi eftir sturtuferð á sjúkrahúsinu Vogi árið 2017. Tryggingafélag SÁÁ vísaði meðal annars til neyslusögu konunnar til stuðnings sýknukröfu sinni.

Málið varðaði atvik í sturtuaðstöðu sjúkrahússins þar sem konan rann á handklæðasvæðinu eftir sturtu. Konan taldi sjúkrahúsið bera bótaábyrgð á slysinu þar sem gólfefni í nýuppgerðri sturtuaðstöðu hafi verið of sleipt og aðbúnaðurinn ekki fullnægjandi.

Gólfmottur lagðar í kjölfar slyssins

Var meðal annars vísað til þess að gólfmottum og handriði hefði verið komið fyrir í handklæðaaðstöðu í kjölfar slyssins sem hefði verið einföld ráðstöfun til þess fallin að takmarka hættu. Þar að auki hefði verið einfalt að setja upp skilti sem hefði varað við.

Af hálfu tryggingafélagsins var meðal annars vísað til þess að gólfdúkurinn á svæðinu væri glænýr og hannaður til þess að skapa viðnám. Þannig hafi á engan hátt verið sýnt fram á að gólf baðherbergisins væri óforsvaranlegt eða hættulegt. Því var einnig haldið fram að slysið mætti rekja til neyslusögu og lyfjanotkunar konunnar bæði fyrir og eftir slysið.

Þreifað á gólfinu í vettvangsgöngu

Í vettvangsgöngu á slysstað sást að handrið hafði verið sett upp við sturtuaðstöðuna sem hægt væri að styðja sig við en einnig gúmmímottu á gólffletinum þar sem konan rann. Dómari þreifaði á gólfinu og fann að flöturinn var háll undir handklæðasvæðinu ólíkt áferðinni í sturtubotninum.

Dómurinn dregur þá ályktun að slysið hafi orðið vegna ófullnægjandi umbúnaðar á baðherberginu á slysdegi. Aðstæður hefðu sérstaklega mátt vera betri í ljósi þess að „þeir sem á sjúkrahúsið sækja [væru] vafalaust í misgóðu ástandi“. Dómurinn neitaði málsástæðum tryggingafélags SÁÁ og sagði félagið auk þess í engu hafa sýnt fram á hvernig lyfjanotkun konunnar kunni að hafa valdið slysinu.

Fallist var á kröfur konunnar og tryggingafélagi SÁÁ gert að greiða málskostnað til hennar sem hljóðaði upp á 1.250.000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert