Skipst á hagnýtum upplýsingum

Björgvin Filippusson er stofnandi og framkvæmdastjóri KOMPÁSS Þekkingarsamfélags sem er …
Björgvin Filippusson er stofnandi og framkvæmdastjóri KOMPÁSS Þekkingarsamfélags sem er vettvangur fjölda aðila víða að. mbl.is/Árni Sæberg

KOMPÁS Þekkingarsamfélagið er vettvangur samstarfs fjölda fyrirtækja, stofnana, háskóla og annarra skóla, sveitarfélaga, stéttarfélaga, lífeyrissjóða og fleiri um miðlun hagnýtrar þekkingar.

Fjöldi tóla í verkfærakistunni

„Hugsunin er sú að það þurfi ekki alltaf að finna upp hjólið heldur sé hægt að miðla hagnýtum upplýsingum sem aðrir geta nýtt. Þar má t.d. nefna verkferla, eyðublöð og gátlista, vinnulýsingar, samninga, reiknivélar og myndbönd. Það eru meira en 3.000 skjöl og myndbönd í verkfærakistu okkar í dag,“ sagði Björgvin Filippusson, stofnandi og framkvæmdastjóri KOMPÁSS Þekkingarsamfélagsins (kompas.is).

„Ég stofnaði Kompás sem ráðgjafarfyrirtækið árið 2001. Svo var mér boðið að koma að ræsingu og þróun verkefnisins „Ráðgjafi að láni“ sem er á sviði starfsþróunar, sí- og endurmenntunar hjá hinu opinbera. Þeir sem stóðu að baki því voru starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins og stéttarfélagið SFR.

Átti sér enga fyrirmynd

Ég var beðinn af þessum sömu aðilum árið 2005 að koma með hugmynd að lausn varðandi mannauðsmálin. Ég lagði fram ákveðna hugmynd sem fékk fljótlega nafnið KOMPÁS Mannauður. Þegar við vorum að byrja á þessu á árunum 2005-2006 virtist þetta hvergi vera til í heiminum. Hugmyndin var alveg einstök hvað varðar hugmyndafræðina, hvernig efnið er búið til í hópvinnu og ritrýnt. Einnig miðlun upplýsinganna. Menn vildu strax sjá þessa hugmynd komast til framkvæmdar og springa út fyrir fleiri svið eins og stefnumótun, verkefnastjórnun, lýðheilsu, umhverfismál, nýsköpun, mannvirkjagerð, skóla, velferðarþjónustu, heilbrigðisstofnanir og ýmsar atvinnugreinar og starfssvið. Nafnið Kompás á ágætlega við því þegar þú skráir þig inn mætir þér ákveðið leiðakerfi. Kompásinn, eða áttavitinn, hjálpar þér að rata þar um, en kerfið er mjög aðgengilegt fyrir notandann,“ sagði Björgvin.

Viljugir að deila upplýsingum

Rekstur Kompáss er fjármagnaður með þátttökugjöldum. Björgvin sagði að þau séu lág en greiðendur nokkuð margir. „Við getum rekið okkur á lágum þátttökugjöldum því við erum ekki að borga fyrir efnið. Við hvetjum menn til að deila þekkingu sinni á þessum vettvangi en við þurfum fjármagn til að vinna efnið og þróa vettvanginn áfram.“

Björgvin sagði að þátttakendur séu ekki tregir til að deila upplýsingum með öðrum. Sem höfundar geti þeir skapað sér ávinning af því að leggja efnið fram. Auk þess er allt efnið ritrýnt og því kostur fyrir höfundana að fá Kompás til að fara yfir og rýna efnið og gæðasetja það.

Fjöldi fólks hefur tekið þátt

Fastir starfsmenn Kompáss eru tveir en hátt í 600 aðilar hafa komið að þátttöku í uppbyggingu Kompáss. Auk þess hefur fjöldi fólks komið að gerð efnis í verkfærakistuna, m.a. í gegnum vinnuhópa hjá fyrirtækjum, stofnunum og víðar.

„Þarna eru jafnt nýsköpunarfyrirtæki og ISO-vottaðir vinnustaðir, íþróttafélög, menntastofnanir og stéttarfélög svo nokkuð sé nefnt. Þetta er allt frá einyrkjum upp í stærstu vinnustaði landsins. Við erum líka með samstarfssamninga við háskólana og efnið okkar hefur verið nýtt við kennslu. Við höfum einnig tekið þátt í að búa til kennsluefni með skólunum. Nemendur hafa fengið aðgang hjá okkur og við höfum byggt brýr milli atvinnulífs og skóla,“ sagði Björgvin.

Risavaxinn ávinningur

Hann sagði að menning þekkingarmiðlunar sé víða lengra komin en hér á landi. „Kompás stuðlar að því að menn sitji ekki á þekkingunni heldur deili henni með öðrum, sýna samfélagslega ábyrgð og efla faglega stjórnun“ sagði Björgvin. „Um leið og þú miðlar þekkingu þá kemur það til baka til þín í gegnum þekkingarsamfélagið. Menn geta sparað gríðarlega mikinn tíma og fjármuni með þátttöku í þekkingarsamfélaginu. Ávinningurinn getur verið risavaxinn þegar upp er staðið. Mig óraði ekki fyrir því hvað hann getur orðið mikill þegar ég fór af stað með þetta verkefni.“

Það sem sparast er fyrst og fremst tími, og tími er peningar. Menn nýta sér efni í verkfærakistu Kompáss og laga það að sínum þörfum í staðinn fyrir að byrja vinnuna frá grunni. Þannig þarf ekki að eyða tíma í að finna aftur upp það sem þegar er til.

Hugtakasafn ferðaþjónustu

Kompás hefur greint þarfir tiltekinna atvinnugreina og mætt þeim.

„Til dæmis kölluðum við saman aðila úr ferðaþjónustunni. Þar kom fram að greinin þyrfti að tala sama tungumál. Við bjuggum því til orðasafn. Nú geymir Hugtakasafn ferðaþjónustunnar um 600 skilgreind orð og hugtök á íslensku og ensku. Það stuðlar að auknum gæðum í ferðaþjónustunni. Til dæmis ef einhver bókar „double“ rúm (tvíbreitt) þá eru ekki tekin frá „twin“ rúm (tvö aðskilin) á hinum endanum. Hugtakasafnið er einnig notað í kennslu allt upp á háskólastig. Kompás hefur þannig byggt brú á milli atvinnulífs og skóla og eins á milli fræðilegrar og hagnýtrar þekkingar,“ sagði Björgvin.

Seilst inn á svið Kompáss

Hann kveðst sorglega oft verða þess var að hið opinbera sé að setja mannskap og fjármuni í verkefni sem búið er að gera með Kompási, byggist á hugverkinu eða unnið hefur verið að til langs tíma hjá Kompási. Kompás hefur í sumum tilvikum þurft að gæta réttar síns og hreyft athugasemdum, sem leiðir ekki alltaf til góðs því „kerfið ver sig“ eins og það hefur stundum verið kallað. Þetta hefur tafið að þekkingarsamfélagið hafi sprungið út og skilað þeim mikla ávinningi sem vænst hefur verið af atvinnulífi og skólum. Vegferð Kompáss heldur áfram þrátt fyrir hindranir, því ávinningurinn er ómetanlegur af öflugu og virku þekkingarsamfélagi á þessum vettvangi samstarfs, að sögn Björgvins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »