„Upplýst umræða“ það eina sem getur bjargað okkur

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland verður að vera vakandi fyrir þeim ógnum sem að landinu steðja og spruttu upp úr jarðvegi sem plægður var af heimsfaraldursástandinu, sem linnir nú senn. Meðal þeirra ógna sem verður að sporna gegn er upplýsingaóreiða og falsfréttir. Aðeins upplýst umræða getur spornað gegn þeim skaða sem hlýst af þessum ógnum. 

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við upphaf ráðstefnu um alþjóðamál í Norræna húsinu í dag. 

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Norræna húsið og utanríkisráðuneytið í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Vestnorræna ráðið standa fyrir ráðstefnunni, sem ber heitið Alþjóðasamvinna á krossgötum.

„Um leið stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum - jafnvel nýjum ógnum – sem fylgja breyttum heimi. Svonefndar fjölþáttaógnir hafa orðið æ meira áberandi á undanförnum misserum, einn þáttur þeirra verður sérstaklega til umræðu hér á eftir: upplýsingaóreiða og falsfréttir.

Frjór jarðvegur hefur skapast fyrir falsfréttir meðan farsóttin hefur geisað, oft settar fram af annarlegum hvötum eða til að grafa undan frjálsum lýðræðissamfélögum og samstöðu þeirra. Árvekni og upplýst umræða skipta hér eftir sem hingað til höfuðmáli við að sporna gegn þeirri óværu sem upplýsingaóreiðan er,“ sagði Guðlaugur í ávarpi sínu.

Miklar sviptingar orðið í utanríkismálum

Guðlaugur ræddi einnig hvernig alþjóðasamstarf hefur tekið breytingum á skömmum tíma vegna faraldursins. Hann, sem og aðrir fundargestir, segir að miklar sviptingar hafi orðið á vettvangi alþjóðasamvinnu og margar af þeim breytingum sem áttu sér stað séu uggvænlegar.

Hann segir að utanríkisráðuneytið hafi einsett sé að tryggja hagsmuni Íslendinga í faraldrinum, sérstaklega þegar óvissan var hvað mest.

„Um leið höfum við líka dæmi um hvernig faraldurinn hefur á köflum truflað samvinnu þar sem ríki reyna jafnvel að fara í kringum gerða samninga til að tryggja eigin hagsmuni. Þannig setti Evrópusambandið í vor reglugerð um útflutningshömlur á bóluefni sem þýddi að EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland, voru ekki lengur á lista yfir þau ríki sem ríkjum ESB er heimilt að flytja bóluefni til án sérstaks útflutningsleyfis.

Við mótmæltum þessum reglum harðlega og bentum meðal annars að þær brytu gegn ákvæðum EES-samningsins. Öflug málafylgja íslenskra stjórnvalda tryggði að reglugerðinni var breytt enda hefði það haft stóralvarlegar afleiðingar fyrir framkvæmd EES-samningsins ef EES-ríkjunum væri mismunað með þessum hætti og yrði að teljast skýrt brot á samningnum.“

mbl.is