14 Íslendingar sæmdir fálkaorðunni

Athöfnin fór fram á Bessastöðum í dag.
Athöfnin fór fram á Bessastöðum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sæmdi í dag 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Á meðal þeirra sem hlutu þennan heiður í ár voru Már Guðmundsson fyrrverandi seðlabankastjóri og Edda Jónsdóttir myndlistakona. 

Fálkaorðuhafarnir við afhendinguna á Bessastöðum í dag.
Fálkaorðuhafarnir við afhendinguna á Bessastöðum í dag. Ljósmynd/Gunnar Geir Vigfússon

Þau sem voru í dag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu eru:

Dagný Kristjánsdóttir fyrrverandi prófessor, Reykjavík, riddarakross fyrir kennslu og rannsóknir á bókmenntum íslenskra kvenna og barnabókmenntum

Edda Jónsdóttir myndlistarmaður og galleristi, Reykjavík, riddarakross fyrir forystu um kynningu og miðlun á íslenskri myndlist

Egill Eðvarðsson kvikmyndagerðarmaður, Reykjavík, riddarakross fyrir frumkvöðlastörf í dagskrárgerð fyrir sjónvarp og framlag til íslenskrar kvikmyndagerðar

Felix Valsson svæfinga- og gjörgæslulæknir, Mosfellsbæ, riddarakross fyrir forystu við innleiðingu nýrrar tækni á sviði lækninga og framlag til björgunarstarfa

Jón Kristinn Cortez tónlistarkennari og kórstjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til kóratónlistar og forystu um útgáfu sönglaga eftir íslensk tónskáld

Lára Stefánsdóttir skólameistari, Ólafsfirði, riddarakross fyrir frumkvæði og nýsköpun á vettvangi framhaldsskóla

Margrét Kristmannsdóttir framkvæmdastjóri og fyrrverandi varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Kópavogi, riddarakross fyrir framlag til íslensks atvinnulífs og opinberrar umræðu

Már Guðmundsson hagfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir störf í opinbera þágu

Ólafur Flóvenz jarðeðlisfræðingur og fyrrverandi forstjóri Íslenskra orkurannsókna, Reykjavík, riddarakross fyrir forystu á vettvangi rannsókna á íslenskum orkuauðlindum

Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og formaður Fuglaverndar, Reykjavík, riddarakross fyrir rannsóknir á íslenskum fuglum, ekki síst fálka og rjúpu, og miðlun þekkingar á því sviði

Páll Halldórsson flugstjóri, Selfossi, riddarakross fyrir framlag til björgunar mannslífum og brautryðjandastörf á vettvangi landgræðslu

Rakel Garðarsdóttir framkvæmdastjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til að efla vitund um matarsóun, betri nýtingu og umhverfismál

Rósa Björg Jónsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur, Reykjavík, riddarakross fyrir sjálfboðastörf í þágu Móðurmáls, samtaka um tvítyngi, við skráningu og miðlun barnabóka á öðrum tungumálum en íslensku

Þorbjörg Helgadóttir fyrrverandi orðabókarritstjóri við Árnasafn í Kaupmannahöfn, Nørre Broby í Danmörku, riddarakross fyrir framlag til íslenskra fræða

mbl.is

Bloggað um fréttina