Hætta í kringum fatagáma Rauða krossins

Í annað skipti á innan við ári festist einstaklingur í …
Í annað skipti á innan við ári festist einstaklingur í fatagámi Rauða krossins mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er ár liðið frá því að maður fannst látinn í söfnunargámi Rauða krossins í Kópavogi. Líkt og mbl.is greindi frá í morgun var tilkynnt um að kona hefði setið föst í fatasöfnunargámi. Konan var þó farin þegar lögregla kom á vettvang. Hún náði að komast sjálf út úr gámnum og hjólaði á brott.

Umræða hefur skapast á Twitter varðandi málið, en sumir telja þessa gáma ekki neitt annað en dauðagildru fyrir jaðarsett fólk í samfélaginu. 

„Það varð hörmulegt slys síðasta vetur en þetta gerist alls ekki oft,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. „Gámarnir eru merktir í bak og fyrir, á fleiru en einu tungumáli, einnig eru þeir með öryggisvottun frá Þýskalandi og við treystum þeirri vottun.“

Kristín segir ekki standa til að taka gámana úr notkun, en að sjálfsögðu verði málið skoðað. „Alltaf þegar eitthvað kemur upp á og viðkemur okkur tökum við málið ítarlega til skoðunar. Í vetur fórum við yfir alla gámana, létum taka þá út og tryggðum að allt væri eins og það ætti að vera.“

Kristín sagðist ekki hafa náð að kynna sér málið nægilega vel, en skoðun færi í gang strax á morgun.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Ljósmynd/Sigurður Óalfur Sigurðsson
mbl.is