Lærði í 14 tíma á dag í þrjú ár

Dúxinn Trausti Lúkas Adamsson fyrr í dag.
Dúxinn Trausti Lúkas Adamsson fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend

Alls voru 130 stúdentar brautskráðir frá Menntaskólanum á Akureyri í dag. Dúx skólans var Trausti Lúkas Adamsson með 9,57 í meðaleinkunn.

Hann hlaut einnig hæstu meðaleinkunn í þriðja bekk, ásamt Maríu Arnarsdóttur, 9,7, að því er kom fram á vef skólans

Spurður hvort hann hafi stefnt að því að dúxa þegar hann hóf námið segist hann fyrst um sinn hafa ætlað að komast bara í gegnum það. Eftir að vel gekk fyrsta árið sá hann að hann átti möguleika á að dúxa og ákvað þá að sækjast hart eftir því. „Svo tókst það bara núna og það er mikil gleði,“ segir Trausti Lúkas í samtali við mbl.is. 

Mikil vinna að baki 

Hann segist hafa lagt mikið á sig til að ná árangrinum. „Þetta er bara vinna. Öll þessi þrjú ár er ég búinn að vera að læra í skólanum um það bil átta tíma á dag, alltaf. Síðan kem ég heim og er að læra hérna í sex tíma rúmlega á dag,“ greinir hann frá og segist lítið frí hafa tekið sér um helgar.

Hann hefði kannski viljað hitta vinina meira en hann gerði og kveðst sjá pínulítið eftir því núna en er engu að síður mjög sáttur við árangurinn.

Spurður hvort fjölskyldan sé ekki stolt af honum segir hann að allir hafi komið til hans og óskað honum til hamingju. Amma hans Auður Þórhallsdóttir fór með honum á athöfnina og var hún hæstánægð með drenginn og stolt, rétt eins og allir hinir.

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd/mbl.is

Truflaði kórónuveiran ekkert námið?

„Jú. Þetta þriggja ára kerfi plús kórónuveiran, þetta eru stórar hindranir,“ segir hann og á þar við að námsárunum hefur verið fækkað úr fjórum í þrjú. Meira námi hafi verið troðið inn í minni tíma. Auk þess hafi nemendur þurft að vera í heimanámi vegna veirunnar, sem hafi verið erfitt.

„Maður fann að það var oft sem maður átti erfitt með að fara upp úr rúminu og koma sér á Zoom eða Teams eða hvað þetta var en það tókst.“

Trausti Lúkas hefur mikinn áhuga á stærðfræði og eðlisfræði og kveðst vera raungreinagúrú. Stefnan hefur verið tekin á framhaldsnám í vélaverkfræði í Háskóla Íslands í haust. Þangað til ætlar hann að vinna í Bónus til að eiga fyrir leigunni í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert