Leituðu ferðamanns við gosstöðvarnar

Ferðamaður í Geldingadölum.
Ferðamaður í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjögunarsveitir leituðu snemma í morgun erlends ferðamanns sem villst hafði af leið við gosstöðvarnar í Geldingadölum. 

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir að maðurinn hafi fundist fyrir skömmu og sé nú á leið til byggðar. 

„Hann labbaði framhjá gönguleiðinni niður og villtist,“ segir Bogi. 

Maðurinn hafði hringt í neyðarlínuna og björgunarsveitir fóru af stað í leit að honum á fimmta tímanum í morgun. 

„Hann var búinn að labba lengi og orðinn þreyttur og svona. Labbar og labbar og labbar og ratar ekki niður. Það er gott veður sem skiptir máli,“ segir Bogi. Maðurinn hafi verið orðinn kaldur en er ekki slasaður. 

Bogi segir svæðið torfært og því hafi það tekið nokkurn tíma að komast að manninum.

mbl.is